top of page

Ályktun aðalfundar SFÚ 2014: Staða fiskmarkaða veldur áhyggjum

Aðalfundur SFÚ var haldinn í Víkinni, Sjóminjasafninu, laugardaginn 8. nóvember 2014. Á fundinum var samþykkt ályktun þar sem áhyggjum er lýst yfir stöðu fiskmarkaða og framtíð þeirra. Gjaldskrárhækkun í byrjun árs var gagnrýnd, settar fram hugmyndir um samræmingu uppgjörs við sjómenn og lýst áhuga á samstarfi við ný samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Hér er ályktunin í heild sinni:

Ályktun samþykkt á aðalfundi SFÚ, 8. nóvember 2014

SFÚ hefur verulegar áhyggjur af framtíð fiskmarkaða á Íslandi. Framboð hráefnis hefur dregist saman og þeir einyrkjar sem verið hafa með sjálfstæðar útgerðir hafa selt sínar aflaheimildir með þeim afleiðingum að mikil samþjöppun er að verða í greininni. Ef ekkert verður að gert er framtíð fiskmarkaða á Íslandi í uppnámi. Fiskmarkaðirnir eru stærstu birgjar aðildarfyrirtækja SFÚ og því ógnar þessi þróun framtíð aðildarfyrirtækja SFÚ.

Strax í byrjun árs 2014 var gjaldskrá stærsta fiskmarkaðar landsins breytt kaupendum í óhag. Fiskmarkaður Íslands stóð einn að þessari hækkun fór þetta beint gegn stefnu stjórnvalda um verðstöðvun sem þá var í gildi. Ráðherra aðhafðist ekkert í málinu þrátt fyrir að honum hafi ítrekað verið gerð grein fyrir því og alvarleika þess. Kostnaður kaupenda við kaup á markaði hækkaði um tugi prósenta við þessa breytingu. Ein afleiðing þessa er að enn frekar hefur fjarað undan fiskmörkuðum. SFÚ fagnar því að flestir aðrir markaðir hafa ekki fylgt fordæmi Fiskmarkaðar Íslands um stórauknar álögur á kaupendur. SFÚ vekur athygli á því að auknar álögur á fiskkaupendur á mörkuðum falla beint á íslenska neytendur.

SFÚ telur mikilvægt að skiptaverð verðlagsstofu gildi um uppgjör við sjómenn hvort sem um er að ræða bein viðskipti með fisk eða sölu á markaði. Slík breyting leiðir til samræmis í launakjörum sjómanna auk þess sem hún tryggir aukið framboð á fiskmörkuðum.

SFÚ óskar nýjum samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) velfarnaðar í sínum störfum. Á þeim vettvangi eru mörg stór mál óleyst, þar með talin verðmyndun á fiski. SFÚ vonast til að aðkoma hinna nýju samtaka að þeim málum verði með uppbyggilegum hætti. Ástæða er til bjartsýni í þeim efnum þar sem hagsmunir SFÚ og hinna nýju samtaka eru í stórum dráttum hinir sömu og nýir forystumenn SFS gefa tilefni til bjartsýni um að að ný samtök vinni á breiðum grundvelli með hagsmuni allrar greinarinnar að leiðarljósi. SFÚ lýsir vilja sínum til samstarfs við SFS í þágu heildarhagsmuna íslensks sjávarútvegs. Slíkt samstarf getur mögulega leitt til sameiningar SFS og SFÚ.


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page