top of page

Er ekki mál að linni?


Þessi grein eftir Ólaf Arnarson birtist í Morgunblaðinu í morgun:

30. júlí 2016 | Aðsent efni | 746 orð | 1 mynd

Er ekki mál að linni?

Eftir Ólaf Arnarson

Kaup HB Granda á aflahlutdeildum í bolfiski frá Hafnarnesi VER, sem nemur 1.600 þorskígildistonnum, eru váleg tíðindi fyrir Þorlákshöfn. Þau eru váleg tíðindi fyrir öll sveitarfélög, sem ekki eru heimastöðvar kvótasterkra útgerðarfyrirtækja með ríkulegar aflaheimildir í bæði bolfiski og uppsjávarstofnum.

Fyrr á árinu keypti Skinney/Þinganes Auðbjörgu í Þorlákshöfn og með þeim kaupum hurfu 1.800 þorskígildistonn úr byggðarlaginu, þannig að blóðtakan á þessu ári er gríðarleg. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum keypti Meitilinn í Þorlákshöfn 1991 og lofaði að fiskvinnslan í sveitarfélaginu yrði efld. Fram til þess tíma hafði bolfiskvinnsla gengið ágætlega þrátt fyrir nokkurn skort á hráefni. Vinnslustöðinni hafði gengið síður í bolfiskvinnslu.

Ekki leið á löngu þar til Vestmannaeyingum fannst ófært að kvóti þeirra væri unninn í Þorlákshöfn og lyktir þeirra mála urðu að Frostfiskur keypti fiskvinnslu Meitilsins. Eftir aldamót var skráning skipa Meitilsins flutt til Eyja og þau auðkennd VE. Kvóti Meitilsins er þar með kominn til Eyja.

Staðan er því sú að allur kvóti er farinn frá Þorlákshöfn, að slepptum þeim kvóta sem Þormóður rammi hefur yfir að ráða. Stærsti vinnustaðurinn er Frostfiskur sem á engan kvóta og býr við mun hærra hráefnisverð en kvótasterku fyrirtækin, sem í skjóli ríkisins landa afla til eigin vinnslu á allt að helmingsafslætti frá fiskmarkaðsverði, sem kvótalausar vinnslur þurfa að greiða. Síðan koma þessi kvótasterku fyrirtæki á kauphliðinni inn á fiskmarkaði og greiða þar mun hærra verð en þau miða við í skiptum til eigin sjómanna. HB Grandi hefur t.a.m. verið stærsti kaupandi ufsa og hefur verið að færast í aukana í kaupum á þorski eftir að fiskvinnslan á Akranesi var stækkuð.

Ekkert lært af Borgunarmálinu

Allt gerist þetta í skjóli ríkisins og ríkisbankans, Landsbankans. Bankinn hefur verið leiðandi í sjávarútvegi og beitt afli sínu til að ganga milli bols og höfðuðs á smærri fyrirtækjum í sjávarútvegi í þágu hinna stærri. Stjórnendur Landsbankans hafa greinilega ekkert lært af Borgunarsölunni, sem rýrði bankann trausti svo að ríkisstjórnin varð að hverfa frá áformum um sölu á hlut sínum í bankanum á þessu ári. Eftir að upp komst um Borgunarhneykslið lofuðu stjórnendur bankans að stærri eignasölur yrðu framkvæmdar í opnu útboðsferli.

Kvótasalan frá Þorlákshöfn sýnir að ekkert hefur breyst. Bankinn afhendir völdum gullkálfum þessar aflaheimildir til þess að verja sín eigin veð. Engar forsendur eru fyrir hárri verðlagningu á aflaheimildum í umhverfi þar sem íslensk útflutningsfyrirtæki standa frammi fyrir sterkri, handstýrðri krónu og löskuðum mörkuðum í mörgum löndum sem eru svo til lokuð vegna mikils falls gjaldmiðla.

Bankinn ver óeðlilega verðlagningu á kvóta sem stimplar alla út aðra en hina sterku, sem hafa stuðning bankans og fá afskriftir eftir þörfum án þess að missa tangarhald á fyrirtækjum sínum og framleiðslutækjum. Það eru nefnilega engar rekstrarlegar forsendur fyrir kaupum á kvóta á því verði sem Landsbankinn heldur uppi. Það virðist ekki skipta máli og tilgangurinn helgar meðalið. Markmiðið er samþjöppun sem skaðar þjóðarbúið í heild. Hagnaðurinn af uppsjávarveiðum er notaður til að safna bolfiskkvóta á örfáar hendur.

Þessi skollaleikur í skjóli ríkisins og ríkisbankans leiðir til þess að fiskmarkaðir eru sveltir. Alvarlegur skortur er á verðmætasta bolfiskaflanum því stóru útgerðirnar halda honum fyrir sínar eigin vinnslur.

Samkeppnismismunun í boði ríkisins

Það er við þessar aðstæður sem Frostfiskur hefur frá 1998 verið stærsti atvinnuveitandinn í Þorlákshöfn með að meðaltali 120 manns í vinnu. Frostfiskur er dæmigert aðildarfélag innan Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ). Fyrirtækið kaupir sitt hráefni á fiskmörkuðum og sinnir kröfuhörðustu viðskiptavinum í Evrópu og Ameríku, sem borga hæsta verðið og krefjast mestu gæða, fullkomins afhendingaröryggis og nákvæmra stærða. Í mörgum byggðarlögum hafa SFÚ-fyrirtæki stigið inn sem atvinnuveitendur eftir að stórútgerðin hvarf á braut með kvótann.

Þrátt fyrir að Frostfiskur og sambærileg fyrirtæki víðar um landið framleiði verðmætustu sjávarafurðir, sem framleiddar eru hér á landi, er ekki rekstrarlegur grundvöllur fyrir kvótakaupum fyrirtækja sem þurfa einatt að keppa við önnur sem fá hráefnið á lægra verði og betri kjör og þjónustu í bankanum.

Kosningamál

Hvað gerist ef Frostfisksbræður og fleiri athafnamenn víða um landið gefast upp á óréttlætinu og loka? Ætlar þá Landsbankinn að koma til hjálpar í byggðarlögum, sem komast á vonarvöl? Eða skiptir fólkið í landinu engu máli?

Ríkisstjórnin styður þetta óréttláta og óhagkvæma kerfi. Mikilvægt er að stjórnarandstaðan leggi sín spil á borðið því fiskveiðistjórnunin verður eitt af stóru kosningamálunum í komandi þingkosningum. Við Íslendingar getum ekki státað af besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi á meðan kerfið mismunar fyrirtækjum og byggðarlögum, og alls ekki á meðan kerfið kemur í veg fyrir að þjóðin njóti hámarksafraksturs af nýtingu sameiginlegrar auðlindar.

Höfundur er hagfræðingur og hefur starfað að verkefnum fyrir Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda.


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page