top of page

Hömlulaus áhættuhegðun bankastjórnenda


Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í morgun:

8. ágúst 2016 | Aðsent efni | 746 orð | 1 mynd

Hömlulaus áhættuhegðun bankastjórnenda

Eftir Ólaf Arnarson

Stjórnendur bankanna og þá ekki síst Landsbankans, sem er í eigu ríkisins og þar með þjóðarinnar, hafa sýnt af sér ámælisverða áhættuhegðun í lánveitingum til sjávarútvegs á undanförnum misserum.

Landsbankinn hefur beitt afli sínu til að tryggja fullar endurheimtur á lánum sem minni fyrirtæki í sjávarútvegi hafa á undanförnum árum tekið til kaupa á kvóta á uppsprengdu verði. Ýmsar ástæður liggja að baki himinháu verði kvótans. Ein er sú að stjórnvöld innheimta ekki raunvirði af útgerðinni fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, fiskinum í sjónum. Fyrir vikið hafa kvótasterk útgerðarfyrirtæki bolmagn til að borga yfirverð fyrir kvótann. Önnur er sú að Landsbankinn og aðrir bankar hafa lánað á færibandi til kvótakaupa og í raun þrýst verðinu upp með óábyrgum lánveitingum.

Þau fyrirtæki, sem ekki hafa yfir að ráða uppsjávarveiðiheimildum jafnframt bolfiskkvóta, ráða hins vegar ekki við að greiða af lánum vegna kvótakaupa. Kemur þar til verð kvótans og að vextir á Íslandi eru hæstu vextir á byggðu bóli vegna alvarlegrar fákeppni á fjármálamarkaði inni á lokuðu myntsvæði íslensku krónunnar.

Af hverju heyrist ekkert frá SFS?

Það er alvarlegur brestur í samkeppnisumhverfi í íslenskum sjávarútvegi. Aðgangurinn að fiskinum í sjónum er niðurgreiddur af hálfu ríkisins með því að gjaldtaka fyrir afnot af hinni takmörkuðu auðlind nemur einungis brotabroti af þeim raunverulegu verðmætum sem ríkið afhendir kvótahöfum. Hagnaðurinn verður eftir í höndum kvótahafanna, og þá einkum þeirra sem ráða yfir bæði bolfisk- og uppsjávarkvóta. Í raun er um fullkomnar aðgangshömlur að ræða í sjávarútvegi okkar Íslendinga fyrir tilstuðlan bankanna. Nýliðun er því sem næst engin, enda þýðir ekkert að keppa við þá sem fyrir eru á fleti og njóta niðurgreidds aðgangs að hráefni auk óskoraðs stuðnings bankakerfisins.

Þetta er sorgarsagan á bak við kvótann sem hvarf frá Þorlákshöfn og kvótann sem á undanförnum árum hefur horfið úr hverju sjávarplássinu á fætur öðru hringinn í kringum landið. Það er athyglisvert að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sem kynna sig sem heildarsamtök fyrirtækja í sjávarútvegi, skuli ekki sjá ástæðu til að mótmæla því þegar bankar neyða hvert sjávarútvegsfyrirtækið á fætur öðru til að selja frá sér kvótann til hinna stóru í greininni. Þess í stað lofsama SFS fiskveiðistjórnunarkerfið, sem markvisst stuðlar að samþjöppun kvóta og auðn í fyrrverandi blómlegum útgerðarplássum víða um land. Eru SFS aðeins að gæta hagsmuna hinna stóru?

Óhófleg áhætta bankanna

Þá vekur framferði bankanna í þessari kvótasamþjöppun ekki síður athygli. Bankarnir eru stærstu kvótaeigendur á Íslandi. Þeir eiga veð í mestöllum kvóta á Íslandsmiðum. Undanfarin misseri hafa bankarnir neytt smærri útgerðarfyrirtæki til að láta af hendi kvótann í skuldaskilum og selt hann til stórra samþættra útgerðarfyrirtækja, sem hafa yfir að ráða ríkulegum aflaheimildum fyrir, bæði í bolfiski og uppsjávartegundum. Heimamönnum hefur verið meinað að stíga inn til að halda kvótanum í byggðarlaginu.

Ekki aðeins hafa bankarnir lánað stóru fyrirtækjunum fyrir kvótakaupum, sem jafnan eru afgreidd á bak við luktar dyr, rétt eins og þegar hlutur Landsbankans í Borgun var seldur til handvalins hóps kaupenda á verði sem kaupendurnir sjálfir ákváðu. HB Grandi, sem keypti kvótann af Hafnarnesi VER í Þorlákshöfn á fjóra milljarða, ætlar að byggja nýja bolfiskvinnslu á Vopnafirði, sem kostar milljarða. Varla gerist það án lántöku, ekki hjá fyrirtæki, sem á síðustu þremur árum hefur greitt hluthöfum sínum 8,5 milljarða í arð á sama tíma og pantaðir eru fimm nýir togarar að verðmæti hátt í tuttugu milljarðar. Jafnvel þó að aðgangurinn að fiskinum í sjónum sé niðurgreiddur er víst að gríðarlegar lántökur fylgja allri þessari fjárfestingu og arðgreiðslum.

Umboðslausir bankamenn?

Í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er kvótanum úthlutað til eins árs í senn og enginn eignarréttur fylgir þeirri úthlutun umfram eins árs afnotarétt. Samt sem áður lánar Landsbankinn stórum útgerðarfyrirtækjum til kvótakaupa og annarra fjárfestinga með veði í kvótanum rétt eins og kvótinn og aflaheimildir séu óvefengjanleg og varanleg eign þessara fyrirtækja.

Í ljósi skýrrar kröfu almennings og fylgis flokka í könnunum er eins líklegt að eftir næstu kosningar verði gerðar breytingar á fiskveiðistjórnun hér við land til að tryggja þjóðinni sjálfri eðlilegt endurgjald fyrir afnot auðlindarinnar. Þar með geta veðin í kvótanum orðið verðlaus á einni nóttu. Utanaðkomandi áföll geta einnig laskað þessi veð.

Lánveitingarnar eru þannig ekki einungis hömlulausar heldur líka fullkomlega óábyrgar og til þess fallnar að skaða eigendur bankanna, sem eru reyndar íslenska þjóðin. Er þessi áhættuhegðun stjórnenda Landsbankans í samræmi við eigendastefnu ríkisins í bankanum? Er fjármálaráðherra samþykkur þessari samþjöppun kvóta og lánaáhættu Landsbankans? Hefur bankastjóri Landsbankans umboð frá fulltrúum eigenda bankans til að stunda svona áhættuhegðun?

Höfundur er hagfræðingur og hefur unnið að verkefnum fyrir Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ).


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page