top of page

Strandveiðar og jákvæð áhrif þeirra á framboð á ferskum fiski.

Í ár eru 10 ár liðin frá því að þáverandi sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason heimilaði strandveiðar.

Í upphafi voru margir gagnrýnir á veiðarnar og vissulega voru ýmsir ágallar, sérstaklega sem sneri að kælingu aflans. Nú 10 árum síðar er óhætt að fullyrða að breyting hefur orðið til batnaðar. Meðferð aflans almennt orðin betri og nú er svo komið að á þeim tíma sem veiðarnar standa yfir eru þær farnar að skipta verulega máli.

Þegar sagt er að þær skipti máli verður að horfa til þess að á sömu 10 árum hefur orðið gríðarleg aukning í útflutningi á ferskum fiski frá Íslandi. Algjör breyting hefur orðið og til einföldunar má segja að frysting hefur dregist verulega saman á sama tíma og útflutningur ferskra afurða hefur aukist stórlega.

Ein afleiðing þessarar breytingar er sú að nauðsynlegra er nú en áður að framboð sé stöðugt. Ferskur fiskur er í eðli sínu nýveiddur þegar hann kemur á disk neytenda. Á sjávarútvegsráðstefnunni sem haldin var nú í haust hélt fulltrúi verslunarkeðjunnar Carrefour, Beatrice Hochard ákaflega athyglisvert erindi sem snerist einmitt um framboð á ferskum fiski og nauðsyn þess að það væri stöðugt. Hún gerði jafnframt grein fyrir því í erindinu að verslunarkeðjur eins og Carrefour aðgreindu Ísland sem uppsprettu frá Noregi t.a.m. sökum þess að héðan væri framboð stöðugra.

Strandveiðar gegna lykilhlutverki í þessum efnum. Eins og línurit sýnir þá koma þær inn í veiðarnar þar sem framboð á þorski er viðkvæmast. Ber einnig að athuga í þessum efnum að mun stærri hluti strandveiðiaflans fer til ferskfiskvinnslu, myndin sýnir því ekki fullkomna mynd af áhrifum strand-veiðanna sem eru mjög mikil.

Það sem strandveiðar hafa umfram aðrar veiðar er markaðslegt gildi. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Þá er það staðreynd að ímynd vöru hefur mun meiri áhrif á kauphegðun en við almennt getum ímyndað okkur. Í vaxandi mæli er: uppruni afurða, siðferðileg nálgun og umhverfisvernd farin að hafa áhrif. Áhrif þessi munu einungis aukast á komandi árum og að því ber að huga. Einyrkinn með gogginn er ljósmynd sem helstu netsölufyrirtæki heimsins á ferskum fiski vilja á heimasíður sínar.

Íslenskur sjávarútvegur hefur á undanförnum árum sýnt framsýni og aðlögunarhæfni. Framleiðni sjávarútvegs skarar fram úr öðrum greinum á Íslandi eins og tölur sýna. Stór hluti þess er vegna sérhæfingar sem átt hefur sér stað í greininni.

Sérhæfingu þessa má ekki síst tengja tilkomu fiskmarkaða á Íslandi á 9. áratugnum. Síðan þá hafa sérhæfð fyrirtæki í veiðum, vinnslu, sölu og markaðssetningu litið dagsins ljós. Strandveiðarnar eru einungis ein birtingarmynd þess til viðbótar. Strandveiðar hafa stutt við framboð á fiskmörkuðum síðan þær komu til og ef þau 63 þús. tonn sem þær hafa skilað í land síðan 2009 hefðu ekki komið til þá væru fiskmarkaðir okkar ekki á sama stað og þeir eru í dag, í sinni stöðugu varnarbaráttu.

Til að setja hlutina í samhengi þá voru á síðasta ári seld um 50 þús. tonn af þorski á fiskmörkuðum landsins og þeir þannig stærsta og áreiðanlegasta uppspretta fersks fisks á landinu. Strandveiðar voru á sama tíma liðlega 9 þús. tonn að stærstu leiti þorskur.

Mikilvægi strandveiða mun einungis aukast á næstu árum, þær ber að efla og styrkja svo þær geti enn frekar fest sig í sessi. Lágmarkskrafa hlýtur að vera að hlutfall þeirra af heildarafla haldist óbreytt.


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page