Lög Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda
1. gr.
Félagið heitir Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda, skammstafað SFÚ.
Félagsaðild er heimil öllum þeim sem starfa í framleiðslu, útflutnings og markaðsmálum sjávarafurða og styðja markmið félagsins.
2. gr.
Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.
3. gr.
Markmið félagsins og tilgangur félagsins er:
Að efla íslenska fiskvinnslu og markaðssetningu íslenskra sjávarafurða, standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna og vera málsvari þeirra gagnvart stjórnvöldum, opinberum stofnunum, fiskmörkuðum og öðrum aðilum.
Að hafa jafnræði að leiðarljósi og vinna að því að skilyrði til eðlilegrar samkeppni ríki í framleiðslu og markaðssetningu sjávarafurða.
Að beita sér fyrir mótun heildarstefnu um framleiðslu og sölu sjávarafurða, sem hafi hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi, efli atvinnuöryggi fiskvinnslufólks og styrki markaðsstöðu íslenskra sjávarafurða í alþjóðlegri samkeppni.
4. gr.
Aðalfund félagsins skal halda í síðasta ársfjórðungi hvers árs og telst starfsár félagsins tímabilið milli aðalfunda. Til aðalfundar skal boðað með minnst viku fyrirvara og er heimilt að boða til aðalfundar með tölvupósti.
Afl atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundinum, en félagi skal vera skuldlaus að minnsta kosti tveimur dögum fyrir aðalfund til að njóta atkvæðisréttar. Verkefni aðalfundar eru þessi:
-
Skýrsla stjórnar
-
Lagðir fram ársreikningar
-
Breytingar á samþykktum
-
Kjör stjórnar og endurskoðenda
-
Nefndarkjör
-
Ákveðin upphæð félagsgjalda
-
Önnur mál
5. gr.
Atkvæðamagn og félagsgjald skulu vera sem hér segir:
Félagsgjöld skulu vera fjögur, misjafnlega há gjöld eftir stærð fyrirtækja og ákveður aðalfundur upphæð gjaldanna og stærðarviðmið. Stjórn félagsins skal gera tillögur til aðalfundar um fjárhæð félagsgjalda.
Lægsta gjaldinu skal fylgja 1 atkvæði, 2 atkvæði því næst lægsta, 4 atkvæði því næst hæsta og 6 atkvæði skulu fylgja hæsta gjaldinu.
6 gr.
Stjórn félagsins skal skipuð 7 mönnum: formanni, gjaldkera, ritara og fjórum meðstjórnendum. Auk þess skulu kosnir 4 menn til vara. Formaður skal kjörinn sérstaklega til eins árs í senn. Meðstjórnendur skulu kjörnir í einu lagi til þriggja ára í senn, tveir á hverju ári og ræður afl atkvæða. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum að öðru leyti. Varamenn skulu kosnir til eins árs í senn. Forfallist formaður skal ritari taka við störfum hans.
Eigi síðar en fjórum vikum fyrir aðalfund skal stjórn með tölvupósti til félagsmanna og tilkynningu á heimasíðu samtakanna auglýsa eftir framboðum í þau stjórnarsæti, sem kosið skal um á komandi aðalfundi, formann, tvo meðstjórnendur og fjóra varastjórnarmenn. Framboð skulu berast eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund.
Kjörnir skulu tveir skoðunarmenn til eins árs í senn.
Stjórn samtakanna ber ábyrgð á fjárreiðum samtakanna og hún skuldbindur samtökin gagnvart öðrum aðilum.
7. gr.
Hlutverk stjórnar er að annast rekstur samtakanna launalaust milli aðalfunda.
Stjórninni er heimilt að ráða sér launaðan starfskraft.
8. gr.
Formaður boðar til stjórnarfunda. Honum er skylt að halda stjórnarfund ef a.m.k. tveir stjórnarmenn krefjast þess.
9. gr.
Félagsmenn bera ábyrgð á skuldum félagsins með félagsgjaldi sínu ef aðrar eignir félagsins hrökkva ekki fyrir skuldum. Að öðru leiti bera félagsmenn ekki ábyrgð á skuldbindingum félagsins og eru skuldir þess þeim óviðkomandi.
Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og skal hún send félagsstjórn. Hún tekur gildi að loknu yfirstandandi starfsári, enda sé viðkomandi þá skuldlaus við félagið.
10. gr.
Samþykktum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi samtakanna. Breytingatillagna skal getið í fundarboði og telst lagabreyting samþykkt með minnst 2/3 hlutum atkvæða.
(Síðast breytt á aðalfundi 2010)
Valmynd
-
Fréttir
-
Símar og netföng
-
Lög félagsins
-
Umsókn um aðild
