top of page

Fréttatilkynning frá SFÚ

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda, SFÚ, hafa fram til þessa ekki blandað sér í umræðu um ákvörðun og úthlutun aflaheimilda. Núverandi ástand kallar hinsvegar á breytingar á þeirri afstöðu SFÚ.

Í ljósi bágrar stöðu þjóðarbúsins, mikils atvinnuleysis og fyrirsjáanlegs hráefnisskorts fiskvinnslustöðva í landinu leggur SFÚ til að aflaheimildir í þorski verði þegar í stað auknar og verði við ákvörðun aukningar litið til meðal ársveiði s.l. 7 ár. Myndi slík aðferð t.d. gefa svigrúm til aukningar á þorskkvóta um 43 þús. tonn.

Telur SFÚ í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um stofnstærð að aukning aflaheimilda, eins og hér er lagt til, muni ekki stofna þorskstofninum í hættu. Verði þessi leið farin er ljóst að komið verður í veg fyrir vinnslustöðvun vegna hráefnisskorts og um leið verði þau störf sem í greininni felast varin og ný störf sköpuð, eins og nauðsynlegt er við núverandi aðstæður í íslensku samfélagi. Leggur SFÚ því til að stjórnvöld setji nú þegar bráðabirgðarákvæði í lög sem heimili aukningu aflaheimilda en aukningin lúti þó ströngum skilyrðum.

Meðal skilyrða sem SFÚ leggur til er að helmingi viðbótarinnar verði úthlutað sem aflamarki til útgerða skv. aflahlutdeild en hinn helmingurinn sé til útleigu gegn hóflegu veiðigjaldi og bundinn þeim skilyrðum að aflanum yrði landað á fiskmarkað.

Leggur SFÚ einnig til að stjórnvöld setji inn í bráðabirgðarákvæði heimild til aukningar í öðrum fisktegundum, þar sem byggt yrði á samsvarandi útreikningum þ.e. meðal ársveiði s.l. 7 ár. Ennfremur er lagt til að aflaheimildir verði auknar í þeim tegundum þar sem aflamark hefur ekki náðst s.l. þrjú fiskveiðiár s.s. ufsa og grálúðu. Verði auknum aflaheimildum í þeim tegundum skipt til helminga niður á tvö fiskveiðiár. Gætu útgerðaraðilar leigt þessar aflaheimildir gegn hóflegu gjaldi með því skilyrði að aflanum yrði landað á fiskmarkað.

SFÚ gerir það að tillögu sinni að 100% veiðiskylda verði á öllum viðbótaraflaheimildum, aflaheimildirnar verði óframseljanlegar, flutningur þeirra á milli fiskveiðiára verði óheimill og óheimilt verði að nota aflaheimildirnar í tegundatilfærslu.

Telur SFÚ að þessar aðgerðir séu mjög brýnar og stjórnvöld verði að bregðast skjótt við þar sem mikilvægir markaðir erlendis eru í uppnámi fáist ekki hráefni í vinnslurnar auk þess sem sporna verði við vaxandi atvinnuleysi. Núverandi ástand réttlæti því fullkomlega aukningu aflaheimilda.


Helstu færslur
Nýlegar færslur