top of page

Ræða Elínar Bjargar Ragnarsdóttur, framkvæmdastjóra SFÚ

Ræða flutt á opnum íbúafundi á Ísafirði, maí 2010

Fundarstjóri, ágætu fundargestir.

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda – SFÚ eru rúmlega 15 ára gömul samtök fiskvinnslna sem byggja hráefnisöflun sína að mestu á kaupum á fiskmörkuðum, þó einstaka aðilar eigi einnig minni útgerðir. Elstu fyrirtækin í samtökunum eru um 30 ára gömul og byrjuðu smátt en hafa vaxið úr því að vera fyrirtæki með 5-10 stöðugildi í það að verða með yfir 100 stöðugildi.

Það sem SFÚ vill beita sér fyrir er sanngjarnt og réttlátt fiskveiðistjórnunarkerfi þar sem litið er á heildarmyndina, frá veiðum á markað, þar sem hagsmunir allra aðila eru tryggðir og samkeppnisumhverfið þannig út garði gert að það tryggi að allir sitji við sama borð er kemur að innkaupsverði hráefnis. Samtökin vilja beita sér fyrir framförum og framþróun samfélaginu öllu til heilla.

Saga framþróunar er saga sigurs yfir erfiðleikum er virðast óyfirstíganlegir. Maðurinn er maður vegna þess, að hann hefur alltaf verið að gera hið ómögulega, - eða það sem hugleysi og heimsku sýnist ómögulegt.

Nú er hamrað á því öllum stundum að fyrningarleiðin eða hvaða önnur leið sem farin yrði til framþróunar sé ómöguleg, ekki framkvæmanleg og leiði allt til glötunar. Hvers vegna? Jú vegna þess að fyrirtækin eru svo illa rekin í dag að þau riða á barmi falls. Er það næg ástæða til þess að gera EKKI breytingar á kerfinu? Er þá ekki einmitt ástæða til þess að gera breytingar? Hefur núverandi kerfi ekki sýnt að það er gallað eins og það er?

Staðreyndin er vissulega sú að skuldastaða fyrirtækjanna er slæm og ef vitnað er í skýrslu sem unnin var af rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri, þá sömu og notuð hefur verið til að rökstyðja að ekki megi hrófla við kerfinu þá riði allt til falls, má sjá að stór hluti fyrirtækjanna riðar nú þegar til falls þó svo að kerfið yrði óbreytt. Hvernig má það vera að af 20 stærstu fyrirtækjunum sem ráða yfir tæpum 70% aflaheimilda séu aðeins tvö þeirra skuldlaus, sex eru í góðri stöðu, níu eru í mjög erfiðri stöðu þar sem brugðið getur til beggja vona en þrjú eru í óviðráðanlegri stöðu. Hvernig stendur á því að 12 af 20 stærstu fyrirtækjum í sjávarútvegi eru í þessari stöðu ef núverandi kerfi er svo gott að engu má breyta? Hvert er virði hlutafjár þessara fyrirtækja? Þessi 12 fyrirtæki ráða yfir tæpum 40% af heildaraflaheimildum, hver á raunverulega þær heimildir nú? Skýrslan sýnir einnig að gríðarleg skuldaaukning varð uppúr árinu 2003, hvernig stendur á því? Þarf ekki að skoða það vel áður en því er slegið föstu að allar leiðir til breytinga séu ófærar? Hvernig er það rökstutt að fyrirtæki geti keypt aflaheimildir á allt að 4000 kr. /kg. en geti ekki greitt sanngjarna leigu fyrir afnot af auðlindinni?

Getur verið að leikurinn hafi verið sá að menn keyptu lítilræði af aflaheimildum á allt að 4000 kr. / kg. og hafi síðan eignfært það sem þeir áttu fyrir af aflaheimildum á verðmatinu 4000 kr. / kg, þar með búið til eign í fyrirtækinu sem hægt var að nota sem andlag veðs og þar með fá lán til kaupa á skuldabréfavafningum, hlutabréfum og fleiru sem síðan varð verðlaust haustið 2008? Getur verið að stjórnendur fyrirtækjanna hafi bara verið að „gambla“ í greinum alls óskyldum sjávarútvegi ogeinfaldlega tapað í þeim áhættuleik? Ef það er raunin eiga slík fyrirtæki ekki einfaldlega að fara á hausinn og komast í eigu aðila sem kunna og geta rekið fyrirtæki? Er þá ekki fyrst komið tækifæri fyrir fuglinn Fönix að rísa úr öskunni?

Nú nýlega kom út rannsóknarskýrsla um bankahrunið sem sýnir okkur að ýmislegt var rotið og rotnaði innanfrá. Því miður var þáttur sjávarútvegsins ekki skoðaður nógu ýtarlega í þeirri skýrslu og er það mitt mat að full þörf sé á að skoða sjávarútveginn einan og sér í annarri rannsókn. Því miður virðist sem margir kjarnar þjóðfélagsins séu jafn sýktir og sá kjarni sem til umfjöllunar var í rannsóknarskýrslunni og full ástæða sé til að skoða tengsl þeirra manna sem teljast til hagsmunaaðila í sjávarútvegi og hvernig valdi er mögulega misbeitt.

Er t.d. eðlilegt að í stjórn Hafrannsóknarstofnunar sem á að veita hlutlausa ráðgjöf sitji aðilar sem hafa af því beina hagsmuni að hafa áhrif á aflaúthlutanir hvers árs? Er ekki eðlilegra að slík stofnun lúti hlutlausri stjórn? Eins og skipun stjórnar Hafró er nú háttað eru þrír af fimm aðilum hagsmunaaðilar og hafa því meirihluta í stjórn. Þeir sem eru þannig skipaðir eru Árni Bjarnason, Friðrik J Arngrímsson og Gunnþór Ingvason. Vera má að menn álíti að þarna komi saman þrír hagsmunaaðilar úr sitthverri áttinni en það þarf ekki að rýna djúpt í gögn til að sjá tengingu á ýmsa kanta. Friðrik er framkvæmdastjóri LÍÚ og tilnefndur af þeirra hálfu. Gunnþór er tilnefndur af Fiskifélagi Íslands þar sem hann er í stjórn, en svo skemmtilega vill til að hann er einnig í stjórn LÍÚ og stjórn SF - samtaka fiskvinnslustöðva sem oft hefur verið álitin önnur skúffa innan LÍÚ. Árni er formaður Farmanna og fiskimannasambands Íslands, en er jafnframt í stjórn Fiskifélagsins. En til þess að komast í stjórn Fiskifélagsins þarftu stuðning meirihluta Fiskiþings en þar ræður LÍÚ og SF yfir 18 atkvæðum af 39 eða rúmum 46% atkvæða. Rýrir þessi samsetning stjórnarinnar ekki trúverðugleika stofnunarinnar? Býður þetta ekki uppá hættu á misnotkun?

Ég hlýt að spyrja mig þeirrar spurningar þegar ég velti því fyrir mér hversvegna ekki má auka aflaheimildir í dag þegar hrygningarstofninn hefur ekki verið stærri síðan 1981, viðmiðunarstofninn svipaður og meðaltal undanfarinna 20 ára, nýliðun í slöku meðallagi síðustu 10-20 ára en aflaheimildir í sögulegu lágmarki samkvæmt tölum Hafró. Þarf stofnunin ekki á því að halda að hún lúti hlutlausri stjórn? Þarf ekki að tryggja hlutleysi stofnunarinnar svo hún standist nútíma kröfur um gagnsæi?

Það sem þjóðin þarfnast í dag eru auknar gjaldeyristekjur og aukin atvinna. Nærtækast væri að nýta auðlindirnar sem við höfum.

Á meðan atvinnuleysi hér á landi er í sögulegu hámarki er afli fluttur óunninn úr landi og skapar fjölmörg störf á erlendri grundu. Í vikunni 2.-8. maí voru flutt út tæp 400 tonn af óunnum fiski. Það magn myndi nægja til að útvega um 250 manns atvinnu við fiskvinnslu þá viku og eru þá ótalin afleidd störf. Er það ekki siðferðisleg skylda þeirra sem nýtingarrétt hafa á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar að gera sitt til að tryggja atvinnu í landinu og stuðla að aukinni verðmætamyndun?

Samkeppnisumhverfi greinarinnar er heldur ekki byggt á réttlátum grunni. Aflaheimildir á ákveðnum aukategundum s.s. keilu, löngu og ufsa hefur til dæmis verið á höndum mjög þröngs hóps sem hefur nýtt

þessar aflaheimildir nánast að fullu til vinnslu í sínum húsum, við það eitt og sér gerir SFÚ í sjálfu sér enga athugasemdir og í raun sjálfsagt að útgerðirnar geti stýrt veiðum í takt við sínar vinnslur og sett sínar gæðakröfur um meðferð hráefnis um borð. Hinsvegar kaupa þessir aðilar hráefnið af sjálfum sér á til þess að gera lágu verði miðað við það sem gerist á fiskmörkuðum. Lágt hráefnisverð úr eigin útgerð gefur þessum aðilum svo það svigrúm að þeir geta komið inn á fiskmarkaðina og keypt upp það litla sem þar er í boði á verðum sem eru það há að engar aðrar vinnslur hafa möguleika á að kaupa inn hráefni á þeim verðum. Eins geta þau í skjóli lágs innkaupsverðs hráefnis undirboðið aðra á mörkuðum erlendis. Þessi fyrirtæki hafa því á vissan hátt markaðsráðandi stöðu sem þau nýta sér og við það gerir SFÚ alvarlegar athugasemdir. Sem dæmi má nefna að vinnsla innan okkar samtaka hefur varið 100 milljónum til kaupa á hráefni umfram það sem aðili sem á útgerð og vinnslu hefur greitt fyrir hráefnið. Ef sá aðili þyrfti að miða hráefnisverð sitt inn í vinnsluna við markaðsverð hverju sinni hefði það skilað sjómönnunum tugum milljóna í auknar tekjur og tryggt að aðilar væru að keppa í heilbrigðu samkeppnisumhverfi.

Tími breytinga er kominn –

Það sem SFÚ vill sjá breytast núna strax er að stjórnarskrá verði breytt á þann hátt að tekin verði af öll tvímæli um eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sjávar. Einnig að fiskveiðistjórnunarkerfinu verði breytt þannig að litið sé heildstætt á atvinnugreinina allt frá veiðum til endanlegs kaupanda afurða. Leikreglur verði skýrar þar sem litið verði til samkeppnissjónarmiða og kveðið verði á um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu. Nýtingarréttur landvinnslu verði tryggður til jafns við nýtingarétt þeirra sem draga fiskinn úr sjó á þann hátt að öllum afla verði landað og hann veginn innanlands, ásamt því að vera einungis boðinn til sölu á innlendum mörkuðum, erlendir aðilar yrðu því að bjóða í fiskinn hér heima í samkeppni við innlenda aðila.

Það eru stjórnvöld sem setja leikreglurnar í þessari grein og því er það skylda stjórnvalda að sjá til þess að skapa réttlátt samkeppnisumhverfi, tryggja nýtingarétt landvinnslunnar á auðlindinni til jafns við nýtingarétt útgerðarmanna og koma á réttlátu og heildstæðu fiskveiðistjórnunarkerfi.

Tækifærið til breytinga er núna. Er það von mín að menn hafi kjark og þor til að stinga á þeim kýlum sem enn eru til staðar í samfélagi okkar. Látum ekki sjávarútvegsbóluna springa í andlitið á okkur líkt og viðskiptabólan gerði.

Svo ég vitni að lokum í Jón Gnarr frambjóðanda besta flokksins „Samfélag okkar er í molum eftir mörg ár af frekju og yfirgangi. Viðskiptabólan blés upp af frekju, sprakk og skildi eftir sig sviðna jörð og slettur útum allt. Það er ekki gott.“


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page