top of page

Skýrsla starfshóps um endurskoðun fiskveiðistjórnunarlaga - Bókun SFÚ

Bókun Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda.

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda, SFÚ, lýsa yfir eindregnum stuðningi við tilboðsleiðina sem þeir Þorkell Helgason og Jón Steinsson lögðu fram. Í huga SFÚ er tilboðsleiðin eina leiðin sem gæti verið grunnurinn að sátt við þjóðina, eiganda auðlindarinnar, auk þess sem sú leið er sú eina sem fallið getur að stjórnarsáttmála stjórnarflokkana. Samningaleiðin telst í raun nýtt orðalag á sömu aðferðafræði sem mun loka kerfinu enn frekar en nú er í stað þess að opna það eins og eðlilegt væri.

SFÚ skorar á stjórnvöld að stuðla að gegnsæjum og eðlilegum viðskiptum með aflaheimildir og er krafa SFÚ að öll viðskipti með aflaheimildir fari í gegnum opinberan markað.

Verði samningaleiðin engu að síður farin er það skoðun SFÚ að einungis skuli samið við þá aðila sem hafa fjárhagslega burði til að stunda rekstur áfram, útgerðarfyrirtæki verði því að standast greiðslumat áður en til úthlutunar komi.

Áður en ákvörðun er tekin um hvaða leið verður farin, leggur SFÚ til að eftirfarandi óháðar athuganir verði gerðar:

  • Hvaða þjóðhagsleg áhrif hvor leið fyrir sig hefur, þ.m.t. hvaða áhrif þær hafa á tekjur ríkissjóðs.

  • þjóðhagsleg áhrif þess að bannað verði að senda óunninn og óvigtaðan fisk úr landi óseldan en allur afli verði þess í stað seldur á innlendum fiskmarkaði þar sem erlendir aðilar geta stofnað ábyrgðir og keypt fisk í raunverulegri samkeppni við innlenda aðila.

  • Hvaða áhrif það hefði á rekstur útgerða ef verðlagsstofa yrði lögð niður og markaðsverð sem skapast á opnum og frjálsum fiskmarkaði yrði látið ráða í beinum viðskiptum með fisk.

Eitt af þeim atriðum sem lögð var áhersla á í skipunarbréfi starfshópsins var að finna leið til að ná þjóðarsátt um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

SFÚ skorar á stjórnvöld að leggja samningaleiðina og tilboðsleiðina fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu, á annan hátt telja SFÚ að örðugt verði að ná sátt við þjóðina um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Jafnframt ítrekar SFÚ þá afstöðu sína að við endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun verði nauðsynlegt að líta til samkeppnissjónarmiða í fiskvinnslu og komið verði í veg fyrir þá samkeppnislegu mismunun sem innbyggð er í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi þar sem útgerðir geta fénýtt aflaheimildir sínar til að niðurgreiða hráefni í sínar eigin vinnslur.

Að öðru leiti er vísað í sameiginlega bókun Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, Sjómannasambands íslands og VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna, svo og umræður í skýrslunni sjálfri.

Bókun þessi var samþykkt á stjórnarfundi SFÚ þann 1. september 2010

Reykjavík 6. sept. 2010.

F.h. SFÚ

Jón Steinn Elíasson

Sameiginleg bókun Farmanna og fiskimannasambands Íslands, Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, Sjómannasambands Íslands og VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna.

Eins og skýrsla starfshópsins um endurskoðun laganna um stjórn fiskveiðanna ber með sér eru mismunandi skoðanir uppi innan hópsins varðandi einstaka þætti um stjórn veiðanna. Því vilja undirritaðir fulltrúar í starfshópnum ítreka afstöðu þeirra samtaka sem þeir eru fulltrúar fyrir varðandi þá þætti í stjórn fiskveiðanna sem samtökin telja mikilvægt að tekið verði á við endurskoðun laganna. Undirritaðir að undanskildum fulltrúa Samtaka fiskframleiðanda og útflytjenda (SFÚ), fallast á að í grunninn verði svokölluð samningaleið farin, þar sem samið verði við útgerðir til um það bil 15 ára um nýtingarétt á auðlindinni. Samningaleiðin breytir þó ekki því að allir undirritaðir fulltrúar, f.h. samtaka sinna, vilja sjá ákveðnar breytingar á ýmsum atriðum varðandi framkvæmd fiskveiðistjórnunarinnar og leggja því áherslu á eftirfarandi:

- að ákvæði komi inn í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins um þjóðareign á auðlindinni.

- að veiðiheimildir verði bundnar við skip.

- Að framsal á veiðiheimildum frá skipi verði bannað. Geti útgerð ekki nýtt veiðirétt sinn sjálf beri að skila umframrétti til ríkisins, sem síðan endurúthlutar réttinum til annarra eftir fyrirfram ákveðnum reglum. Þó verði útgerð heimilt að flytja veiðiheimildir milli eigin skipa og útgerð verði einnig heimilt að skipta við aðrar útgerðir á veiðiheimildum í einstaka tegundum, enda sé um jöfn skipti að ræða miðað við þorskígildisstuðla sem gefnir verða út opinberlega.

- að allur óunninn afli sem landað er verði seldur á markaði eða markaðsverð á innlendum fiskmörkuðum verði látið ráða í beinum viðskiptum.

- að í lög verði sett ákvæði um fjárhagslegan aðskilnað milli veiða og vinnslu, á hliðstæðan hátt og kveðið er á um í raforkulögum nr. 65/2003. Þar sem óheimilt verði, út frá samkeppnissjónarmiðum, að fénýta aflaheimildir til niðurgreiðslu á hráefni í eigin vinnslur.

Að öðru leyti er vísað til skýrslunnar sjálfrar.

Reykjavík 6. september 2010.

f.h Farmanna- og fiskimannasambands Íslands

Árni Bjarnason

f.h. Sjómannasambands Íslands

Sævar Gunnarsson

f.h. VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna

Guðmundur Ragnarsson

f.h. Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda

Jón Steinn Elíasson


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page