top of page

Hvar liggja ófaglegu vinnubrögðin?

Í Fréttablaðinu 27. maí s.l. velti Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia háskóla, fyrir sér tengslum framlegðar og fiskverðs í fiskvinnslu og komst að þeirri niðurstöðu að útgerðin væri líklega að færa fjármuni úr útgerðinni yfir í vinnsluna þegar veiðar og vinnsla eru á sömu hendi og að flest benti til að útgerðin hafi verið selja eigin vinnslu afla á undirverði og með því farið á svig við kjarasamning sjómanna. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, vildi í fyrstu ekki tjá sig um málið á annan veg en að Jón stundaði ekki fagleg vinnubrögð og Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur LÍÚ, sagði þetta rangt hjá Jóni og gerði jafnframt lítið úr vinnubrögðum Jóns. Í Fréttablaðinu 28. maí kom Friðrik hinsvegar með þá skýringu að verð í beinum viðskiptum væri 75-80% af verði á markaði og verðmunurinn væri tilkominn vegna sölukostnaðar.

Til að líta á faglegheitin í þessum fullyrðingum er ekki úr vegi að líta á staðreyndir málsins sem finna má í opinberum skráningum sem öllum eru opnar á netinu.

En hver er verðmunurinn á markaðsverði og verði í beinum viðskiptum á milli útgerðar og vinnslu í eigu sama aðila? Á vef Verðlagsstofu www.verdlagsstofa.is má finna opinbera skráningu á þessum verðum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem þar má finna um nýjustu verð þann 31. maí eru meðalverð og verðmunur þessi.

Tafla 1.png

Framkvæmdastjóri LÍÚ gefur þær skýringar að verðmismunurinn liggi í sölukostnaði á fiskmörkuðunum. Það er því ekki úr vegi að athuga hver sölukostnaður á fiskmörkuðum er. Upplýsingar um það má m.a. finna á www.fms.is/um/gjaldskra-fms/ og http://rsf.is/sida/gjaldskra_markada samkvæmt því er sölukostnaður 5-6% eftir magni sem selt er innan ársins.

Tafla 2.png

Við skulum heldur ekki gleyma því að einhver kostnaður fylgir einnig beinum viðskiptum.

Dæmið lítur einfaldlega svona út ef tvær vinnslur kaupa 6000 tonn af þorski á þessum verðum.

Tafla 3.png

Það er því stundað stórsvig á kjarasamningum líkt og Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, tekur undir í þessum greinum, þ.e. sjómenn verða af umtalsverðum tekjum. Útgerðin verður jafnframt af tekjum sem færðar eru yfir í vinnsluna líkt og Jón Steinsson bendir á. Því má velta fyrir sér hvar ófaglegu vinnubrögðin liggja.

En við vitum nú í það minnsta hvaðan þeir fjármunir eru fengnir sem sum fyrirtæki nýta til að skreyta sig í fjölmiðlum er þeir greiða „uppbætur“ til starfsmanna sinna.

Spurningin er hinsvegar er þetta réttlátt samkeppnisumhverfi í fiskvinnslunni þegar kemur að hráefniskaupum og ráðningu starfsfólks? Stutta svar SFÚ er nei. En nánar verður fjallað um það í annarri grein.


Helstu færslur