Kvótafrumvörpin - hvað með réttlátt samkeppnisumhverfi í greininni?
Góðan dag háttvirtur þingmaður.
Nú um þessar mundir eru til umræðu lagafrumvörp er varða breytingar á löggjöfinni um stjórn fiskveiða. Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda - SFÚ vilja benda þér á að í frumvörpunum er ekkert tekið á einum alvarlegasta galla núverandi kerfis, þ.e. þeirri samkeppnislegu mismunun sem við teljum afleiðingu af núverandi lagaumhverfi greinarinnar, en SFÚ telja að lög nr. 116/2006 um fiskveiðistjórnun og lög nr. 13/1998 um verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna vegi beint og óbeint að stjórnarskrárvörðum rétti félagsmanna um jafnræði og atvinnufrelsi þegnanna sbr. 65. gr. og 75. gr. laga nr. 33/1944 ásamt því að leiða til óeðlilegrar samkeppnismismununar í fiskvinnslu sem sé andstætt tilgangi samkeppnislaga nr. 44/2005
SFÚ bendir á að frumvörpin eru sögð byggja á skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða, við viljum benda þér á bls. 83 í skýrslunni en þar má finna sameiginlega bókun SFÚ, Farmanna og fiskimannasambands Íslands, Sjómannasambands Íslands og VM - Félags vélstjóra og málmtæknimanna er varðar fjárhagslegan aðskilnað milli veiða og vinnslu og að markaðsverð verði látið ráða í beinum viðskiptum með fisk. Eru það forkastanleg vinnubrögð að mati SFÚ að þetta álit skuli algerlega hunsað í frumvörpunum.
Ennfremur vill SFÚ benda þér bókun SFÚ á bls. 84 í skýrslunni ásamt fylgiskjali 10 í skýrslunni.
Til að útskýra samkeppnismismununina nánar bendum við þér á að lesa meðfylgjandi greinargerð sem SFÚ skilaði inn til Sjávarútvegsnefndar Alþingis er þingmál nr. 50 var til umfjöllunar í nefndinni og varðar samkeppnismál í greininni.
Jafnframt bendum við þér á að lesa skýrslu sem SFÚ gaf út fyrir 11 árum síðan og varðar samkeppnislega mismunun sem er fylgifiskur núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis. Skýrsluna má finna á vefslóðinni http://www.sfu.is/hagnytar-upplysingar/utgefid-efni/ en skýrslan er enn í fullu gildi þrátt fyrir að fjárhæðir hafi breyst.
Að vera þingmaður á Alþingi Íslendinga er mikil ábyrgð og telur SFÚ það ámælisvert ef þingmenn ætla að loka augunum fyrir þessu máli og samþykkja breytingar á lögum um stjórn fiskveiða án þess að taka tillit til þeirra þátta sem við erum að benda hér á.
Virðingarfyllst.
F.h. Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda
Elín Björg Ragnarsdóttir
Framkvæmdastjóri SFÚ.
P.s. Tölvupóstur þessi er sendur á alla þingmenn
Greinagerð SFÚ til sjávarúvegsnefndar Alþingis má finna hér.