Eru fjöldauppsagnir framundan í fiskvinnslu?
Um síðustu mánaðamót greindi Vinnumálastofnun frá því að fjórar tilkynningar um hópuppsagnir hefðu borist stofnunninni í maí mánuði, þar af ein í fiskvinnslu. Ástæða uppsagnarinnar var hráefnisskortur.
Þessar fréttir komu Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda - SFÚ ekki á óvart þar sem vitað er að magn hráefnis á fiskmörkuðum hefur dregist talsvert saman milli ára og fjölmargar fiskvinnslur hafa átt erfitt með að halda uppi fullri vinnuviku.
Fyrirtækin hafa þó vel flest reynt að forðast það að segja upp fólki og vonað að ástandið færi batnandi og aukið hráefni skilaði sér inn á fiskmarkaðina en ljóst má vera að á endanum kemur að því að fyrirtækin verða að grípa til fækkunar starfsfólks.
Að þessu tilefni sendu SFÚ eftirfarandi tilmæli til velferðarráðherra Guðbjarts Hannessonar þann 11. maí s.l.:
Tilmæli til ráðherra varðandi breytingu á lögum nr. 51/1995
Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda – SFÚ beinir þeim tilmælum til ráðherra að hann beiti sér fyrir breytingum á 4. mgr. 1. gr. laga nr. 51/1995 um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks eða beiti sér fyrir setningu bráðarbirgðaákvæðis til samræmis við bráðabirgðaákvæði laganna, sem sett var með lögum nr. 152/2007, og gilti til 31. desember 2009.
Telja SFÚ það mjög brýnt að þessi breyting náist í gegn sem allra fyrst svo ekki þurfi að koma til varanlegra uppsagna og fækkunar starfsfólks hjá fiskvinnslufyrirtækjum þar sem mörg fyrirtæki eru við það að fara yfir 45 daga viðmiðið þrátt fyrir að einungis þriðjungi ársins sé lokið. Sú leið sem mörg fyrirtæki gætu farið í þessari stöðu væri sú að segja upp starfsfólki fyrir sumarleyfi og reka í framhaldinu vinnslurnar frá haustinu á lausráðnu fólki með tilheyrandi kostnaði fyrir atvinnuleysistryggingasjóð.
Þó svo að bráðarbirgðaákvæði laganna hafi fallið út fyrir árið 2010 var engu að síður miðað við 60 daga hjá Vinnumálastofnun það ár, það er því fyrst nú sem raunverulega reynir á 45 daga viðmiðið. Verður að telja að í núverandi atvinnuástandi sé 15 daga aukning þessara heimilda ódýr og skynsöm leið ef það má verða til þess að uppsagnir í greininni verði lágmarkaðar.
Einnig má benda á að við gildistöku laganna, 9. mars 1995, var miðað við 60 daga en lagafrumvarpið var samið í tilefni af ákvæðum kjarasamnings Verkamannasambands Íslands, Vinnumálasambandsins og Vinnuveitendasambands Íslands, dags. 21. febrúar 1995, um kauptryggingu verkafólks í fiskvinnslu og yfirlýsingu samningsaðila, dags. 20. febrúar 1995, um að framkvæmd samningsins væri háð því að Alþingi samþykkti nauðsynlegar breytingar á lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. 60 daga viðmiðinu var hinsvegar síðar breytt með lögum nr. 136/2003 niður í 45 daga. Það hefur því einungis verið miðað við 45 daga árin 2004, 2005, 2006 og 2007, eða fjögur ár af síðustu sextán árum.
Er það ósk SFÚ að ráðherra taki þessi tilmæli til greina og leggi sitt af mörkum til að renna tryggari stoðum undir fiskvinnslu í landinu.
Virðingarfyllst.
f.h. Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda.
__________________________
Elín Björg Ragnarsdóttir.
Framkvæmdastjóri
Velferðarráðherra svaraði erindinu þann 16. maí þar sem hann þakkaði fyrir ábendinguna og ætlaði hann að láta skoða málið. Þann 3. júní var mikilvægi erindisins enn ítrekað og óskað svara um í hvaða farvegi málið væri þar sem framundan væru fjöldauppsagnir ef ekki yrðu breytingar á þessari reglu.
Skemmst er frá því að segja að þau svör hafa ekki borist og engar vísbendingar á lofti um það að verið sé að vinna að málunum.