top of page

Talsvert flutt út af óunnum afla í maí og júní.

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda – SFÚ hefur undanfarið ár margbent á það hversu mikið magn hráefnis er flutt úr landi óunnið án þess að innlendar fiskvinnslur hafi raunverulegan möguleika á að kaupa hráefnið og vinna hér heima. Er það mat SFÚ, eins og bent hefur verið á í fyrri greinum, að gríðarleg tækifæri til aukinnar atvinnu og aukinna útflutningstekna felist í því að bjóða þennan afla upp á innlendum mörkuðum í stað þess að flytja hráefnið til sölu á erlendum mörkuðum. Telja SFÚ að eðlilegra væri að bjóða aflann upp hér innanlands og erlendir aðilar geti þá boðið í aflann hér. Þannig væru innlendar og erlendar fiskvinnslur fyrst í raunverulegri samkeppni um hráefnið.

Eins og málum er nú háttað á að skrá allan afla sem fyrirhugað er að flytja úr landi á svokallað Fjölnet. Á Fjölnetinu skrá útgerðaraðilar það lágmarksverð sem þeir vilja fá fyrir aflann og er það oft á tíðum mun hærra en markaðsverð hvort heldur sem litið er til erlendra eða innlendra markaða. Eins hefur það borið við að þrátt fyrir að vinnslur innan SFÚ hafi verið tilbúnar til að greiða uppsett verð þá hafi aflinn einfaldlega ekki fengist afhentur og verið fluttur úr landi til sölu á erlendum markaði.

Í maí og júnímánuði voru sem dæmi flutt út rúm 500 tonn af ýsu og rúm 200 tonn af þorski, er ljóst að það magn eitt og sér hefði nægt til að halda a.m.k. einni vinnslu með 35-40 manns í starfi í fullri vinnslu á tímabilinu, eru þá ótaldar aðrar tegundir.

Þau rök hafa oft heyrst að verð á erlendum mörkuðum sé einfaldlega mikið hærra en á íslenskum mörkuðum en í meðfylgjandi skjölum má sjá yfirlit yfir magn og verð útflutts afla, annars vegar maí mánuði og hins vegar júní mánuði. Er þar tilgreint verð sem útgerðaraðili gefur upp sem lágmarksverð á Fjölneti, það verð í ISK sem fékkst fyrir aflann á erlendum fiskmarkaði, skilaverð er söluverð erlendis að frádregnum áætluðum 80 kr. kostnaði við flutning o.fl. og að lokum verð á innlendum fiskmörkuðum til samanburðar. Rauðlituð verð í Fjölnetsdálknum tákna verð sem er hærra en það verð sem fékkst á erlendum markaði, grænn litur í verð á innlendum mörkuðum táknar verð sem er hærra en skilaverð og gulur litur táknar verð sem er hærra en verð á erlendum mörkuðum.

Talnagögn eru fengin af vef Fiskistofu og Reiknistofu fiskmarkaða.


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page