top of page

Engar útgerðarvinnslur, takk! - Ólafur Arnarson

SJS a thingi_141229.jpg
Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra með meiru, hefur boðað framlagningu frumvarps um breytingar á lögum um fiskveiðistjórnun. Það er yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að stokka upp núverandi kerfi en lítil eining er um þau áform á Alþingi og innan ríkisstjórnarflokkanna. Þannig eru litlar líkur á því að róttækar breytingar náist í gegnum þingið – alla vega þegar horft er til kvótakerfisins sjálfs. Boðaðar breytingar á fiskveiðikerfinu hafa valdið mikilli óvissu í sjávarútvegi. Útgerðarfyrirtæki, sem ekki vita hvort kvóti þeirra verður gerður upptækur með lagasetningu, hafa haldið að sér höndum með fjárfestingar og á meðan dragast íslensk fyrirtæki aftur úr í alþjóðlegum samanburði. Flotinn eldist og tæki úreldast. Rök fyrir gagngerri breytingu á kvótakerfinu byggjast fyrst og fremst á tvennu. Annars vegar því að upphafleg úthlutun kvótans á sínum tíma hafi verð ranglát og handahófskennd. Þetta er alveg rétt. Hins vegar er því haldið fram að eigandi auðlindarinnar, íslenska þjóðin, fái ekki greitt eðlilegt endurgjald frá þeim sem fengið hafa einkarétt til að nýta auðlindina. Þetta er líka rétt. Úthlutun kvótans var ósanngjörn og því fer fjarri að handhafar veiðiheimilda greiði eðlilega leigu fyrir afnot af þjóðarauðlindinni. Þrátt fyrir þessa augljósu og alvarlegu annmarka er fiskveiðistjórnunarkerfið okkar það besta í heimi. Sjávarútvegur er höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar og skilar miklum tekjum í þjóðarbúið. Hjá öðrum þjóðum er þessu þveröfugt farið. Víðast hvar annars staðar en á Íslandi er sjávarútvegur ríkisstyrkjahít. Evrópusambandið endurskoðar nú sjávarútvegsstefnu sína og notar íslenska kerfið sem fyrirmynd. Kvótakerfið með frjálsu framsali hefur gefist vel við verndun fiskstofna og stuðlar að hagræðingu í greininni.

Sjávarútvegur er ekki bara útgerð

fiskvinnslulina_141229.jpg

Fólki hættir til að einblína á útgerðina þegar rætt er um sjávarútvegsmál. En sjávarútvegsmál eru svo sannarlega meira en bara útgerð og kvóti. Eins mikilvægt og það er nú að draga fisk úr sjó þá skiptir ekki minna máli að verka aflann og koma honum til neytenda. Fiskvinnslan í landinu er ómetanlegur hlekkur í þeirri keðju, sem kemur fiskinum í verð og býr til tekjur fyrir þjóðarbúið.

Segja má að fiskvinnslan skiptist í tvennt. Annars vegar eru sjálfstæðir framleiðendur, sem kaupa nánast allan sinn afla á fiskmörkuðum á því markaðsverði, sem gefst hverju sinni. Hins vegar eru það útgerðarvinnslurnar, sem eru í höndum útgerðanna. Samkvæmt íslenskum lögum mega útgerðirnar selja sínum eigin fiskvinnslum fiskinn á verði, sem ákvarðað er af verðlagsstofu; svonefndu skiptaverði verðlagsstofu. Verðlagsstofuverðið er allt að 30-40 prósentum lægra en markaðsverð þannig að útgerðarvinnslurnar hafa gífurlegt samkeppnisforskot á sjálfstæða framleiðendur.

Afleiðingar þessarar mismununar eru margvíslegar. Aflahlutur sjómanna er reiknaður út frá söluverðmæti afla og því er ljóst að sjómenn hjá útgerðum, sem selja aflann til eigin vinnslu á verðlagsstofuverði, eru hlunnfarnir samanborið við sjómenn hjá útgerðum sem selja sinn afla á markaði. Þannig bera þeir sjómenn minna úr býtum og borga þar af leiðandi minni skatta til bæði ríkis og sveitarfélaga. Hafnargjöld miðast einnig við aflaverðmæti og því er ljóst að útgerðir með vinnslu spara sér hafnargjöld á kostnað sveitarfélaganna sem reka hafnirnar.

Réttlætismál sem styður þjóðarhag

batar i hofn_141229.jpg

Af þessu má sjá að það er réttlætismál fyrir sjómenn, sveitarfélög og ríkið sjálft að horfið verði frá tvöfaldri verðlagningu á sjávarafla. Ekki nóg með það heldur hefur borið á því að útgerðarvinnslur undirbjóði sjálfstæða framleiðendur á erlendum mörkuðum og skemmi jafnvel markaði, sem sjálfstæðir framleiðendur hafa byggt upp á mörgum árum. Þetta geta útgerðarvinnslurnar vegna þess að þær fá hráefnið á miklu lægra verði en sjálfstæðir framleiðendur. Þannig stuðlar tvöföld verðlagning á sjávarafla beinlínis að því að afrakstur þjóðarbúsins af höfuðatvinnugrein þjóðarinnar verður rýrari en ella. Öll þjóðin ber tjónið af því.

Þá er ótalið, að þessi tvöfalda verðlagning sjávarafla gerir útgerðum, sem jafnframt reka eigin vinnslur, kleift að dulbúa afkomu útgerðarhluta fyrirtækjanna. Með því að aflinn er seldur á 30-40 prósent lægra verði til vinnslunnar en fengist fyrir hann á markaði virðist hagnaður af útgerðinni vera mun minni en hann raunverulega er. Þetta skiptir miklu máli, vegna þess að eðlilegt leigugjald fyrir einkaafnot af þjóðarauðlindinni hlýtur að reiknast út frá þeim hagnaði, sem útgerðin nær út úr nýtingu á kvótanum.

Tækifæri fyrir stjórnmálastéttina

Samkvæmt samkeppnislögum hefur Samkeppniseftirlitið heimild til að krefjast fjárhagslegs aðskilnaðar á milli samkeppnisreksturs og reksturs sem nýtur ríkisstyrkja eða -verndar. Ekki er hægt að deila um að einkaaðgangur að takmarkaðri þjóðarauðlind – fiskinum í sjónum – er eitthvert tærasta form ríkisstyrkjar sem hugsast getur. Því hlýtur Samkeppniseftirlitið á endanum að beita þessari lagaheimild og skikka útgerðarfyrirtæki með vinnslu til að gera fullan fjárhagslegan aðskilnað milli veiða og vinnslu. Stjórnmálamenn eiga hins vegar ekki að bíða eftir Samkeppniseftirlitinu í þessum efnum. Hér er kjörið tækifæri fyrir stjórnmálastéttina til að sameinast um réttlætismál fyrir þjóðina. Þingmenn hljóta að geta sameinast um lagasetningu, sem skilur algerlega milli veiða og vinnslu og tryggir að allur afli af Íslandsmiðum fari á markað til að tryggja hámarksafrakstur af þjóðarauðlindinni okkar. Þetta er ekki aðeins réttlætismál. Þetta er þjóðþrifamál.

Pistill þessi birtist á Pressunni 24. janúar 2012 og má lesa hér.


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page