top of page

Sjávarútvegsráðherra á fiskmarkaði í Grimsby

Reykjavík 14. febrúar 2012 Fréttatilkynning Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda fagna þeim áhuga sem sjávarútvegsráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sýnir fiskmörkuðum, en samkvæmt fréttum var hann föstudaginn 10. febrúar viðstaddur opnun fiskmarkaðar í Grimsby í kjölfar endurbóta á aðstöðu þar. Vel á fjórða tug þúsunda tonna af ferskum bolfiski eru flutt frá Íslandi óunnin ár hvert án þess að íslenskir fiskverkendur hafi raunverulegt tækifæri til að bjóða í hráefnið til jafns við erlenda kaupendur. Um tveir þriðju hlutar þessa hráefnis fer til Bretlands. Þar skapast þúsundir starfa við fullverkun hráefnisins með tilheyrandi verðmætaaukningu. Eins og málum er nú háttað skal skrá allan afla sem fyrirhugað er að flytja úr landi á svokallað Fjölnet. Á Fjölnetinu geta útgerðaraðilar skráð það lágmarksverð sem þeir vilja fá fyrir aflann, en sú brotalöm er á því fyrirkomulagi að oft á tíðum er skráð lágmarksverð mun hærra en markaðsverð, hvort heldur litið er til erlendra eða innlendra markaða. Eins hefur borið við að þrátt fyrir að vinnslur innan SFÚ hafi verið tilbúnar til að greiða uppsett verð þá hafi aflinn einfaldlega ekki fengist afhentur, en fluttur úr landi til sölu á erlendum markaði. Helsta baráttumál SFÚ er að allur ferskur bolfiskur fari á innlendan fiskmarkað til að tryggja jafnræðis í aðgengi að hráefni milli fiskvinnsla í eigu útgerðarfélaga og sjálfstætt starfandi fiskvinnsla. Erlendir kaupendur geta allt eins boðið í hráefni hér á landi í samkeppni við innlenda kaupendur, en reynsla sýnir að betra verð fæst að jafnaði fyrir afla á innlendum markaði en erlendis. Það er einnig hagsmunamál fyrir sjómenn. Til að skýra betur markmið SFÚ hafa samtökin óskað eftir fundi með öllum þingflokkum og er fyrsti fundur staðfestur nú í viku sjö. Mikið vantar uppá að innlendar fiskvinnslur séu starfræktar með fullum afköstum. Aukið framboð hráefnis á innlendum fiskmarkaði er því brýnt. Með vísan í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá 10. maí 2009, undir kaflanum Fiskveiðar segir: Brýnar aðgerðir a) Knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis með því m.a. að skoða hóflegt útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað. Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda skora á sjávarútvegsráðherra, Steingrím J. Sigfússon, að beita sér fyrir því að þessar brýnustu aðgerðir ríkisstjórnarinnar komist til framkvæmda án frekari tafa.


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page