top of page

Þriðjungsforgjöf til útgerðarinnar - Ólafur Arnarson

Í nýjasta hefti Fiskifrétta er fjallað um þann gríðarlega mun, sem er annars vegar á því verði, sem sjálfstæðir fiskframleiðendur þurfa að greiða fyrir fisk á fiskmörkuðum og hins vegar því verði sem útgerðarvinnslur (fyrirtæki, sem hafa hvoru tveggja – útgerð með kvóta og fiskvinnslu) greiða fyrir afla í beinum viðskiptum. Það getur munað meira en helmingi á verði. Sjálfstæðir fiskframleiðendur þurfa að kaupa allt sitt hráefni á fiskmörkuðum og eru því fullkomlega háðir markaðinum. Útgerðarvinnslurnar hafa hins vegar heimild í lögum og reglugerð til að nota annað verð í beinum viðskiptum innan sama fyrirtækis. Það er hið svokallaða skiptaverð Verðlagsstofu. Nú liggja fyrir upplýsingar um verð á helstu fisktegundum eftir ráðstöfun afla á árinu 2011 og niðurstaðan er sláandi. Verðmunurinn er á bilinu 34-60 prósent. Meðalverð á slægðum þorski á íslensku fiskmörkuðunum var í fyrra 35 prósent hærra en meðalverðið í beinum viðskiptum. Nær 80 prósent þorskafla var ráðstafað í beinum viðskiptum en einungis rúmlega 20 prósent fóru á fiskmarkað. Hér er að auki undanskilinn afli frystitogara og aflinn, sem er seldur óunninn í gámum úr landi. Það vekur furðu að slík samkeppnismismunun skuli fá að standa. Útgerð í fiskveiðilögsögu Íslands er ríkisvernduð atvinnugrein vegna þess að handhafar veiðiheimilda hafa einkarétt til að nýta auðlindina. Fiskvinnsla er hins vegar samkeppnisatvinnugrein og þar mega sjálfstæðir framleiðendur sæta því að útgerðarvinnslurnar, sem njóta ríkisverndar á útgerðarhluta starfsemi sinnar, fá hráefni til sín á allt öðru og lægra verði en verður til á markaði. Þannig geta útgerðarvinnslurnar nýtt ríkisverndina í útgerðinni til að skapa sér samkeppnisforskot í samkeppni við frjálsa framleiðendur. Löglegt - eða hvað? Það er ekkert ólöglegt við þetta. Útgerðarvinnslurnar eru ekki að brjóta lög. Lögin eru bara svona vitlaus. Samkeppniseftirlitið hefur lagaheimildir til að krefjast fjárhagslegs aðskilnaðar ríkisverndaðs rekstrar og samkeppnisrekstrar innan sama fyrirtækis eða fyrirtækjasamsteypu. Raunar gera Evrópureglur skýra kröfu um slíkan aðskilnað og hér á Íslandi hefur laga- og regluumhverfi orku- og fjarskiptafyrirtækja verið breytt til samræmis við Evróureglurnar. Lagaumhverfi ríkisútvarpsins hefur tekið breytingum vegna þess að stofnunin, sem nýtur ríkisstyrkja, er líka í samkeppnisrekstri og það er nauðsynlegt að tryggja að ríkisstyrkurinn/aðstoðin gangi ekki til að niðurgreiða samkeppnishluta rekstrarins. Það blasir við að Samkeppnisyfirvöld hljóta að beita valdheimildum sínum til að tryggja fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu í útgerðarfyrirtækjum. Það er ekki aðeins réttlætismál fyrir sjálfstæða fiskframleiðendur að tekið verði á þessu misrétti á markaði. Hér hanga hagmunir miklu fleiri aðila á línunni og raunar hagsmunir þjóðarbúsins sjálfs og skattgreiðenda. Sjómenn og skattgreiðendur hlunnfarnir Skiptahlutur sjómanna er reiknaður út frá aflaverðmæti. Það leiðir af sjálfu sér að sjómenn á skipum, sem selja afla sinn í beinum viðskiptum á skiptaverði Verðlagsstofu, fá skertan hlut samanborið við þá sem starfa á skipum sem selja afla sinn á markað. Hafnargjöld er reiknuð út frá aflaverðmæti og því eru hafnir og eigendur þeirra – sveitarfélögin – hlunnfarin vegna hins tvöfalda verðlags sem tíðkast í sjávarútvegi. Ríki og sveitarfélög fá minni skatttekjur vegna lægri launa sjómanna. Það er e.t.v. enn alvarlegra í þessu máli, að verðlagsstofuverðið gefur ranga mynd af hráefnisverði í fiskvinnslu. Útgerðarvinnslurnar undirbjóða sjálfstæða framleiðendur á erlendum mörkuðum í krafti lægra hráefnisverðs. Slíkt skaðar hagsmuni þjóðarbúsins. Þá er verðlagsstofuverðið til þess fallið að draga úr bókhaldslegum hagnaði útgerðarinnar, sem aftur leiðir til þess að sá grunnur, sem auðlindagjald og/eða leigugjald fyrir afnot af auðlindinni er reiknaður af, er rangur. Fyrir vikið mun þetta tvöfalda verðlag í sjávarútvegi koma í veg fyrir að ríkið fái eðlilegt endurgjald frá þeim, sem hafa einkarétt á að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Nú stendur yfir endurskoðun á löggjöf um fiskveiðistjórnun. Stjórnvöld hljóta að tryggja eðlilegt samkeppnisumhverfi á sviði fiskvinnslu samhliða slíkri endurskoðun. Með hliðsjón af því hvaða kröfur eru gerðar til fjárhagslegs aðskilnaðar milli ríkisverndaðrar starfsemi og samkeppnisstarfsemi í öðrum greinum, eins og orku, fjarskiptum og ljósvakamiðlun er fráleitt annað en að gerð sé skýr krafa um fullkominn fjárhagslegan aðskilnað útgerðar og vinnslu og að tvöfalt verðlagningarkerfi í sjávarútvegi verði lagt af. Markvissasta leiðin til að koma á eðlilegu samkeppnisumhverfi í fiskvinnslu á Íslandi er að setja allan fisk á markað og tryggja að allir aðilar eigi viðskipti á markaðsverði en ekki að sumum standi til boða að nota tilbúið verð, sem er lægra en það verð sem markaðurinn framkallar. Þetta er hagsmunamál þjóðarinnar. Þetta er líka réttlætismál fyrir fiskvinnsluna í landinu. Síðast en ekki síst er þetta réttlætismál fyrir íslenska sjómenn.


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page