Fyrr í þessum mánuði skrifaði ég pistil um þá forgjöf sem útgerðarvinnslur hafa á samkeppnismarkaði vegna tvöfalds verðlagskerfis fyrir sjávarafurðir. Ég færði rök fyrir því að þessi mismunun á samkeppnisaðstöðu er beinlínis skaðleg fyrir þjóðarbúið í heild sinni og gríðarlega ósanngjörn gagnvart t.d. sjómönnum, sem starfa hjá útgerðum sem selja afla á skiptaverði Verðlagsstofu í beinni sölu í stað þess að setja aflann á fiskmarkað.
Nokkrar umræður spunnust um pistilinn á Facebook síðu minni og fram komu þau sjónarmið að mikið hagræði væri af því fyrir greinina að hafa verðmætakeðjuna á sömu hendi. Þannig væri afhendingaröryggi mun meira hjá þeim aðilum sem starfræktu bæði útgerð og fiskvinnslu. Nefnt var að Norðmenn væru farnir að hallast að því að íslenska fyrirkomulagið, þ.e. veiðar og vinnsla á sömu hendi, skapi Íslendingum samkeppnisforskot.
Það held ég að við Íslendingar gætum brosað og jafnvel hlegið að frændum okkar, Norðmönnum, ef þeir hallast að því að það sé samtvinning veiða og vinnslu sem skapi samkeppnisforskot Íslendinga á mörkuðum úti í heimi. Eitthvað hafa þeir misskilið hlutina.
Sjálfstæðir framleiðendur þurfa að borga meira
Það er ekkert óskaplega langt síðan að samkeppni í fiskvinnslu var nær engin hér á landi. Stóru fisksölufyrirtækin, með SÍF og SH í broddi fylkingar, höfðu einokun á útflutningi sjávarafurða. Þá var megnið af íslenskum fiski, þ.e. sá hluti sem ekki var saltaður, fluttur út frosinn sem hráefni fyrir frekari framleiðslu. Kaupendur voru t.d. skyndibitastaðir, skólar og fangelsi. Þetta voru stórkaupendur sem borguðu tiltölulega lágt verð. Ekki er vert að gera lítið úr starfi stóru fisksölufyrirtækjanna. Þessi útflutningur skilaði gjaldeyri inn í landið.
Illmögulegt var fyrir sjálfstæða framleiðendur að hasla sér völl í fiskvinnslu. Erfitt var að fá útflutningsleyfi og menn þurftu að sýna fram á að þeir fengju miklu hærra verð en stóru sölufyrirtækin. Annars var útleyfi ekki veitt.
Með harðfylgni og dugnaði náðu samt djarfir einstaklingar að byggja upp sjálfstæðar fiskvinnslur hér á landi. Það var ekki auðvelt. Þeir máttu búa við það að kaupa hráefni til vinnslunnar á 30-40 prósent hærra verði en útgerðarvinnslurnar. Vitanlega leiddi þetta til þess að sjálfstæðu framleiðendurnir þurftu að nýta hráefni sitt mun betur en útgerðarvinnslurnar. Þeir þurftu líka að selja vöru sína á hærra verði – bæði til að fá útflutningsleyfi og til þess að hafa upp í hráefniskostnaðinn.
Nýir markaðir verða til
Smám saman urðu til markaðir fyrir hágæða íslenskan fisk. Hann fór að sjást í sælkerabúðum í Evrópu og á fínni veitingahúsum. Það voru sjálfstæðir framleiðendur sem ruddu brautina að verðmætum mörkuðum í Evrópu og vestan hafs. Íslenskur fiskur var ekki lengur aðeins hráefni til frekari framleiðslu heldur hágæða neytendavara. Nú kemur maður varla að fiskborðinu í betri matvöruverslunum í Bretlandi og á meginlandi Evrópu án þess að sjá gljáandi ferskan íslenskan fisk sérstaklega upprunamerktan.
Víst er að iðnaðarframleiðslumarkaðir gera ríkar kröfur um afhendingaröryggi hráefnis en það gera markaðir fyrir hágæða neytendavörur svo sannarlega líka – og alls ekki síður. Munurinn er sá að fiskur sem fer á neytendamarkað skilar miklu meira til þjóðarbúsins en frosna blokkin. Það eru sjálfstæðir framleiðendur sem hafa byggt upp neytendamarkað fyrir íslenskan fisk.
Haldlítil eru rök þeirra sem halda því fram að afhendingaröryggi sé best tryggt með því að samtvinna veiðar og vinnslu. Hágæðamarkaðir á borð við smásölumarkað í Frakklandi og Þýskalandi gera gríðarlegar kröfur um afhendingaröryggi. Það eru sjálfstæðir framleiðendur sem hafa byggt upp þessa markaði og sjá þeim fyrir fiski.
Undirboð og slæleg meðferð hráefnis
Sjálfstæðir framleiðendur hafa í mörgum tilfellum þurft að horfa á útgerðarvinnslur koma inn á markaði, sem byggðir hafa verið upp á löngum tíma með natni og nánast blóði, svita og tárum, og stunda undirboð. Þannig hefur hin tvöfalda verðlagning sjávarfangs á Íslandi leitt til takmörkunar á verðmætasköpun þjóðarbúsins. Það er vitanlega óþolandi.
Nokkuð hefur borið á því að útgerðarvinnslur selji afla af Íslandsmiðum óunninn í gámum til útlanda. Gengi gjaldmiðla hefur stundum ráðið því hvoru megin Atlantsála fiskur frá útgerðarvinnslunum hefur endað. Það eru ekki sjálfstæðir framleiðendur, sem þurfa ávallt að greiða hæsta verð á fiskmörkuðum, sem standa í því að selja fisk óunninn úr landi. Þeir þurfa meiri verðmætasköpun en hægt er að fá út úr slíkum hráefnisútflutningi.
Þegar búið er að pakka íslenskum fiski í gáma til flutnings á erlenda markaði er hann ekki lengur hágæða neytendavara. Hann hefur enga sérstöðu lengur. Þetta er bara frosinn fiskur sem gæti eins verið frá Rússlandi eða Kína. Það eru ekki sjálfstæðir framleiðendur sem gengisfella íslenska fisk með þessum hætti. Það gera aðrir.
Bæði framboð og eftirspurn aukast
Einhverjir vilja meina að það geti haft mikil áhrif á fiskverð á mörkuðum ef allur íslenskur fiskur fer á markað. Núna fara einungis um 20 prósent af fiski á markað. Það gæti vissulega haft einhver áhrif á fiskverð að afli þar verði fimmfaldur að magni frá því sem nú er en hinu má ekki gleyma, að þeir sem nú kaupa afla í beinum viðskiptum á skiptaverði Verðlagsstofu, munu þurfa að kaupa sinn fisk á markaði ef allur fiskur fer þar í gegn. Þannig verður það ekki aðeins framboðshliðin sem eflist heldur líka eftirspurnin.
Eins og staðan er í dag hafa útgerðarvinnslurnar það forskot á markaði að þær kaupa hráefni sitt á 30-40 prósent lægra verði en sjálfstæðir framleiðendur. En það segir ekki alla söguna vegna þess að þess þekkjast dæmi að útgerðarvinnslur hafi keypt lítið magn á markaði, sprengt upp verðið og þannig skekkt samkeppnisstöðuna enn frekar sér í hag og sjálfstæðum framleiðendum, sem verða að reiða sig á markaði, í óhag.
Í kvótakerfinu felst ríkisstuðningur við þau fyrirtæki, sem fá úthlutað aflaheimildum. Engin rök standa til þess að leyfa þessum fyrirtækjum að njóta sérkjara á framleiðslumarkaði þar sem þau keppa við sjálfstæða framleiðendur. Þegar við blasir að þetta fyrirkomulag er beinlínis skaðlegt fyrir þjóðarbúið í heild hljóta ráðamenn að leggjast á eitt til að lagfæra kerfið.
Ég hef tekið að mér verkefni fyrir Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) og komið fram fyrir þau samtök. Þær skoðanir, sem ég viðra í þessum og öðrum pistlum, eru hins vegar mínar skoðanir og algerlega á mína ábyrgð.