top of page

Ráðuneytið vildi ekki rannsókn - RÚV

fiskverkakonur_141229.jpg
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið krafðist þess að Samkeppniseftirlitið myndi ekki taka kvörtun Samtaka fiskframleiðanda og útflytjenda um samkeppnislega mismunun fiskvinnslna til rannsóknar. Tíu mánuðum síðar fá samtökin engin svör hjá Samkeppniseftirlitinu um hvort málið sé þar til skoðunar.

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda sendu Samkeppniseftirlitinu erindi í maí á síðasta ári, þar sem kvartað var undan samkeppnishömlum í skjóli laga um stjórn fiskveiða.

Samtökin segja að fiskvinnslur landsins búi við samkeppnislega mismunun og lögin geri sjávarútvegsfyrirtækjum, sem hafa á höndum bæði fiskveiðar og fiskvinnslu, kleift að selja hráefni á milli félaga sinna á verði langt undir markaðsvirði.

Samkeppniseftirlitið sendi hagsmunaaðilum bréf í kjölfarið til að leita umsagna.

Í svarbréfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins í lok júní er þess krafist að Samkeppniseftirlitið hafni því að taka kvörtunina til rannsóknar og málsmeðferðar. Hún fjalli efnislega um hliðstæð eða samskonar álitaefni og samkeppnisyfirvöld hafi þegar fjallað um.

Þá hafi samkeppnisyfirvöld þegar beitt sér fyrir jöfnun samkeppnisskilyrða í greininni, meðal annars með tilmælum til stjórnvalda, sem ráðuneytið hafi tekið til skoðunar, samanber frumvörp fyrir Alþingi um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þá sé kvörtunin reist á ófullnægjandi lagarökum.

Sigurður Ingi Jónsson, talsmaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, segir afstöðu ráðuneytisins hafa valdið miklum vonbrigðum.

„Við áttum nú ekki von á því að ráðuneytið myndi fara fram á að þetta yrði ekki tekið til rannsóknar og málsmeðferðar, og færa fyrir því rök að þetta hafi verið tekið fyrir fyrir röskum áratug. En síðan er farið í lagarök um hvers vegna ætti ekki að taka þetta fyrir - ég get séð hvers vegna hagsmunaaðilar myndu færa slík rök fyrir því að það ætti ekki að taka þetta mál fyrir. En mér er ómögulegt að skilja hvers vegna ráðuneytið gerir slíka kröfu.“

Sigurður segir að engin svör hafi fengist frá Samkeppniseftirlitinu um hvort málið sé þar til skoðunar, nú tíu mánuðum eftir að kvörtunin var send. Þá segir hann að nýtt kvótafrumvarp valdi vonbrigðum, þar sem ekki sé tekið á vandræðum sjálfstæðra fiskvinnslna. Þar komi fram að einungis undirmálsfiskur skuli skikkaður á frjálsan markað.

„En svo er athyglisverð athugasemd við frumvarpið frá fjármálaráðuneytinu. Þar er verið að tala um samþættingu veiða og vinnslu og þeir gera sér grein fyrir því hagræði sem hægt er að hafa af því - án þess að það virðist koma fram í hverju það hagræði er fólgið. En það er í grunninn fólgið í að því ódýrar sem hægt er að gera upp við áhafnir, því ódýrar er hægt að taka hráefni inn í sína eigin vinnslu.“

http://www.ruv.is/frett/raduneytid-vildi-ekki-rannsokn


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page