top of page

Er ráðuneytið deild innan LÍÚ? - Ólafur Arnarson

Í maí á síðasta ári sendu Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) Samkeppniseftirlitinu (SKE) kvörtun vegna samkeppnismismununar sem sjálfstæðir fiskframleiðendur búa við á markaði hér innanlands. Annars vegar sneri kvörtunin að því að gildandi lög fela í sér opinberar samkeppnishömlur og hins vegar að því að fyrirtæki, sem bæði stunda útgerð og fiskvinnslu, misnoti markaðsráðandi stöðu sína. SFÚ fer fram á að Samkeppniseftirlitið beiti þeim valdheimildum sem það hefur til að lagfæra það markaðsmisrétti sem ríkir, m.a. með því að krefjast fjárhagslegs aðskilnaðar útgerðar og vinnslu. Kvörtunin var send til umsagnar hagsmunaaðila og annarra sem aðkomu hafa að málinu, svo sem venja stendur til. Meðal þeirra sem beðnir voru um umsögn var Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið (SLR), sem er jú það ráðuneyti sem ber heildarábyrgð á starfsumhverfi í sjávarútvegi og á að gæta þess að greinum sjávarútvegsins sé ekki mismunað. Undir ráðuneytið heyra bæði útgerðarvinnslur, sem njóta lögbundins samkeppnisforskots, og sjálfstæðir framleiðendur, sem mega sæta því að borga markaðsverð fyrir allt sitt hráefni á meðan útgerðarvinnslurnar fá sitt hráefni á 30-40 prósent lægra verði í beinum viðskiptum á skiptaverði Verðlagsstofu. Í lok júní barst SKE svar frá SLR. Ekki er um umsögn að ræða í hefðbundnum skilningi heldur frekar kröfugerð þar sem ráðuneytið krefst þess að SKE hafni því að taka kvörtun SFÚ til rannsóknar og málsmeðferðar. Fullyrða má, að það er ekki ónýtt fyrir útgerðina og lögmenn hennar að eiga þann hauk í horni sem SLR er. Röksemdafærsla ráðuneytisins er með eindæmum og hefð sérhver lögmaður útgerðarvinnslu talist fullsæmdur af slíkri hagsmunagæslu fyrir skjólstæðing sinn. SLR bendir SKE góðfúslega á að vinnubrögð og nálgun hjá eftirlitinu séu eitthvað bogin. Þannig upplýsir ráðuneytið SKE um „þá meginreglu“ sem fram komi í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá árinu 2000 um að samkeppnisyfirvöld eigi

víðtækt mat um það hvaða kvartanir leiða til rannsókna eða annarra aðgerða af þeirra hálfu.

Sjálfsagt hafa starfsmenn SKE verið Sjávarútvegsráðuneytinu einlæglega þakklátir fyrir að benda jafnframt á að samkvæmt samkeppnislögum er SKE heimilt að forgangsraða málum eftir „málefnalegum sjónarmiðum“. Já – og haldið ykkur nú – SLR bendir SKE á að eftirlitið hafi hreinlega ekki efni á að taka til rannsóknar mál á sviði sjávarútvegs vegna þess að eftir hrun og niðurskurð hafi það ákveðið að

leggja áherslu á mál er tengjast mikilvægum neytendamörkuðum, svo sem matvörumarkaði og fjármálaþjónustu.

Þökk sé hinu háa ráðuneyti sjávarútvegs fyrir leiðsögnina. Hvar væru samkeppnisyfirvöld eiginlega stödd, ef ekki nyti guðlegrar forsjónar SLR? Auðvitað á SKE að láta sjávarútveginn í friði!

Sjavarutvegshusid_141229.jpg

Ekki nóg með það, heldur leggur SLR fram „efnisleg rök“ fyrir því að það þurfi hreint ekkert að skoða samkeppnisumhverfi í fiskvinnslu. Ráðuneytið bendir SKE náðarsamlegast á að það hafi afgreitt hliðstæð mál áður, þ.e. umkvartanir sjálfstæðra framleiðenda vegna samkeppnisforskots útgerðarvinnslu. Eitt árið 1996 og annað árið 2000. Hvað eru menn þá að vilja upp á dekk með kvartanir árið 2011? SFÚ fara fram á að SKE beiti valdheimildum sínum og geri kröfu um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu hjá útgerðarvinnslum. Máli sínu til stuðnings benda SFÚ á ákvæði raforkulaga nr. 65/2003, sem kveða á um fjárhagslegan aðskilnað virkjana og orkudreifingar í samræmi við Evrópureglur, þar sem virkjanir njóta einokunar í skjóli ríkisins en dreifing fer fram á samkeppnismarkaði. Á sama hátt er útgerð, sem byggir á einkaleyfi til að nýta takmarkaða auðlind, í raun ríkisvernduð starfsemi á meðan fiskvinnsla er samkeppnisgrein. SLR finnst það frekar óforskammað hjá SFÚ að benda á lagaumhverfi í orkudreifingu sem rök fyrir afnámi samkeppnismismununar í fiskvinnslu. Í lok umsagnar/kröfugerðar SLR áskilur ráðuneytið sér rétt til að:

„hafa uppi frekari kröfur, málsástæður, mótmæli og lagarök á síðari stigum málsins, eftir því sem tilefni verður til og lög heimila. Jafnframt er áskilinn réttur til að leggja fram frekari gögn.“

LIU_141229.jpg

Þetta er athyglisvert. Ráðuneytið fékk erindi SFÚ sent til umsagnar en sendir andmæli, kröfur og fyrirmæli til SKE líkt og eftirlitið heyri undir SLR en ekki Efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Ætli efnahags- og viðskiptaráðherra, sem jafnframt er ráðherra samkeppnismála, láti það óátalið að ráðuneyti, sem ekkert hefur yfir SKE að segja, sendi eftirlitinu fyrirmæli um afgreiðslu samkeppnismáls? Það verður fróðlegt að sjá viðbrögð ráðherrans. Kannski kallar hann kollega sinn, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrann á fund og kemur mótmælum á framfæri vegna óviðeigandi afskipta af eftirlitsstofnun? Einnig gæti efnahags- og viðskiptaráðherra krafið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um skýringar á því hver stjórnskipuleg staða Sjávarútvegsráðuneytisins er. Er það sjálfstætt ráðuneyti eða er búið að koma því fyrir í skipuriti LÍÚ? Kröfugerðin til SKE bendir til þess ráðuneyti sjávarútvegs heyri undir boðvald LÍÚ en ekki öfugt. Ég hef unnið að verkefnum fyrir SFÚ, m.a. að því að kynna stefnu samtakanna út á við.


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page