Fréttatilkynning SFÚ vegna frumvarps til laga um stjórn fiskveiða
Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda
Fréttatilkynning
Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda, SFÚ, lýsa vonbrigðum með nýtt frumvarp til laga um stjórn fiskveiða.
Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá maí 2009 segir í kaflanum Fiskveiðar, undir fyrirsögninni Brýnar aðgerðir: a) Knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis með því m.a. að skoða hóflegt útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað.
Nú, réttum þremur árum síðar, er lagt fram frumvarp til laga um stjórn fiskveiða þar sem hvergi örlar á efndum í þessu þjóðþrifamáli.
Í athugasemdum með frumvarpi til laga um veiðigjöld segir orðrétt um tengsl veiða og vinnslu: „Samþætting veiða og vinnslu getur verið forsenda fyrir hagkvæmu rekstrarskipulagi en hefur jafnframt óæskileg áhrif á samþjöppun og markaðsstöðu og skapar möguleika á afbrigðilegri verðlagningu í viðskiptum tengdra aðila sem skekkir grundvöll fyrir skattlagningu og fleira.“ Athugasemdirnar eru frá nefnd sem skipuð var af þáverandi fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni.
Ljóst er af þessu að ráðherranefndin gerir sér fyllilega grein fyrir því að núverandi fyrirkomulag er gott fyrir útgerðarvinnslur, fiskvinnslur í eigu útgerða, en óæskileg fyrir aðra, þar á meðal áhafnir skipa sem selja hráefni til tengdra aðila.
Sjálfstætt starfandi fiskvinnslur standa verulega höllum fæti gagnvart útgerðarvinnslum þegar kemur að aðgengi að hráefni. Það liggur fyrir að sjálfstætt starfandi fiskvinnslur þurfa að jafnaði að greiða um þriðjungi hærra verð fyrir hráefni en útgerðarvinnslur, auk þess sem þeim er í raun meinaður aðgangur að nærri 40 þúsund tonnum af bolfiski sem fluttur er óunninn úr landi, þó svo að fyrir liggi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að „knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis“.
Einni andvanafæddri tilraun var hrundið í framkvæmd til að gefa innlendum fiskvinnslum færi á að nálgast þetta hráefni áður en það yrði flutt óunnið úr landi, svokallað Fjölnet, sem er misnotað til að koma óunnum afla úr landi með því að setja lágmarksverð á aflann sem er allt að tvöfalt hærra en markaðsverð, hvort heldur er innan lands eða utan, enda seldist innanlands ekki nema 0,37% þess afla sem skráður var á Fjölnetið árið 2011.
Þessi mismunun, sem rekin er í skjóli yfirvalda, hefur verið kærð til Samkeppniseftirlitsins. Heggur þá sá er hlífa skyldi, en Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sendi erindi til Samkeppniseftirlitsins vegna málsins, þar sem þess er krafist að Samkeppniseftirlitið hafni að taka erindi SFÚ til rannsóknar og málsmeðferðar. Farið verður fram á að Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skýri afstöðu ráðuneytisins. Einnig verður farið fram á að Efnahags- og viðskiptaráðherra, sem fer með samkeppnismál, geri grein fyrir því hvort um eðlilegt boðvald sé þarna að ræða. Auðvelt ætti að vera að samræma viðbrögð við þessum beiðnum, þar sem ráðherra beggja ráðuneyta er Steingrímur J. Sigfússon.