Gerir út af við litlar fiskvinnslur - Álfheiður Eymarsdóttir
Álfheiður rekur Silfurfisk í Hafnarfirði, sem er lítil fiskvinnsla sem kaupir fisk af markaði, vinnur hann og selur til Evrópu.
„Það er mín skoðun að fiskveiðistjórnunarfrumvarpið eitt og sér muni allavega gera út af við fiskmarkaði og litlar fiskvinnslur í landinu sem eru kvótalausar alveg burtséð frá veiðileyfagjaldinu sem er annar kapítuli.“
Álfheiður segir að í kvótarumvarpinu sé ekki tryggður aðskilnaður veiða og vinnslu.
Litlu fiskvinnslurnar hafi keypt fisk á markaði á að meðaltali 30% hærra verði en vinnslurnar sem stóru útgerðarfyrirtækin reka. Þau veiði sinn fisk og vinna sjálf og selja sér hann á opinberu verði sem er mun lægra en verðið á fiskmarkaði.
„Þetta er ástandið eins og það er núna..en það sem er alvarlegra þarna er að þarna er verið að festa þetta varanlega í sessi. Það er tekið fram í fiskveiðistjórnunarfrumvarpinu sjálfu að það megi ekki hrófla við þessu nýja kerfi í fimm ár eftir að það tekur gildi og aflaheimildirnar, þú ert kominn með þær núna varanlega í hendur til næstu tuttugu ára.“
Álfheiður segir að beðið hafi verið eftir nýju réttlátu kerfi þar sem boðaður er aðskilnaður veiða og vinnslu.
„Þannig að þjóðin sé ekki að selja fiskinn sinn á slikk inn í útgerðarvinnslurnar. Þetta er 30% lægra verð. Sjómennirnir eru hlunnfarnir því þeir eru ráðnir upp á hlut, þeir fá lægri laun, það eru lægri skatttekjur og útsvar og síðan er hagnaðurinn tekinn út í gengum vinnsluna eða sölufélag erlendis.“
http://www.ruv.is/frett/gerir-ut-af-vid-litlar-fiskvinnslur