top of page

Fréttatilkynning SFÚ - Athugasemdir vegna frumvarps um fiskveiðistjórnun

Reykjavík 20.04.2011

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda – SFÚ

Frumvarp um fiskveiðistjórnun ekki tímabært

  • SFÚ telur ekki tímabært að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um fiskveiðistjórnun á meðan ekki liggur fyrir niðurstaða Samkeppniseftirlitsins vegna erindis SFÚ sem varðar ágalla á löggjöfinni og verðmyndunarmála, sem ekki er tekið á í hinu nýja frumvarpi.

  • Megin krafa SFÚ er sú að allur botnfiskur verði seldur á íslenskum uppboðsmörkuðum og markaðsverð ráði með öll viðskipti með afla, slíkt verður að vera bundið í lög um stjórn fiskveiða.

  • SFÚ áréttar að ámælisvert er að litið sé framhjá sameiginlegri bókun SFÚ, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Sjómannasambands Íslands og VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna er varðar fjárhagslegan aðskilnað milli veiða og vinnslu og að markaðsverð verði látið ráða í beinum viðskiptum með fisk milli tengdra aðila, í skýrslu vinnuhóps um endurskoðun á stjórn fiskveiða (bls. 83).

  • Ekki verður hjá því komist að að lögbinda fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu í nýrri löggjöf um stjórn fiskveiða.

Mikið vantar uppá að innlendar fiskvinnslur séu starfræktar með fullum afköstum. Aukið framboð hráefnis á innlendum fiskmarkaði er því brýnt. Með vísan í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá 10. maí 2009, undir kaflanum Fiskveiðar segir:

Brýnar aðgerðir:

a) Knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis með því m.a. að skoða hóflegt útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað.

SFÚ skora á sjávarútvegsráðherra, Steingrím J. Sigfússon, að beita sér fyrir því að þessar brýnustu aðgerðir ríkisstjórnarinnar komist til framkvæmda án frekari tafa. Þær kalla ekki á lagabreytingu.

Steingrímur J. Sigfússon – Morgunblaðið 18.02.2007

„Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill strax taka á kvótabraski og kvótaleigu, komist flokkurinn í ríkisstjórn að afloknum kosningum. Auk þess vilja vinstri græn taka á aðgangi innlendrar fiskvinnslu að hráefni, því æ minna magn fari um fiskmarkaði.“


Helstu færslur
Nýlegar færslur