top of page

Afkoman er tvöfalt betri - Ólafur Arnarson

Afkoman er tvöfalt betri

Skip_141229.jpg

Margir hafa orðið til að gagnrýna sjávarútvegsfrumvörp ríkisstjórnarinnar, sem Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra lagði fram á Alþingi fyrir skömmu. Mest áberandi hefur verið gagnrýni frá helstu hagsmunaaðilum og aðilum þeim tengdum. Af gagnrýni LÍÚ mætti ætla að fyrirhugaðar breytingar á kvótakerfinu muni ríða íslenskum útgerðum að fullu. Undir þetta taka ýmsir sérfræðingar, sem flestir eiga það sammerkt að LÍÚ hefur ráðið þá til að gefa álit á þessum málum. Landsbankinn telur fyrirhugaðar breytingar leiða til þess að hann neyðist til að afskrifa lán upp á meira en 30 milljarða til útgerðarinnar. Hvernig stendur á því? Hefur bankinn sýnt svo mikið ábyrgðarleysi í útlánum til útgerðarinnar að gera alls ekki ráð fyrir auknum veiðigjöldum, sem þó hafa verið boðuð í mörg ár?

Hátt reitt til höggs

Althingi_141229.jpg

LEX lögfræðistofa telur jafnvel að breytingarnar gangi svo nærri hag útgerðarinnar að þær brjóti í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Einhvern tímann las ég haft eftir þekktum lögspekingi að ef málsatvik væru manni í óhag ætti maður að benda á lögin og ef lögin væru manni í óhag ætti maður að benda á stjórnarskránna. Í öllu falli er hátt reitt til höggs þegar njótendur þjóðarauðlindarinnar beita eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar fyrir sig þegar eigandi auðlindarinnar hyggst gera breytingar á nýtingu eignar sinnar.

Talað er um að 70 prósent af framlegð útgerðarinnar verði gerð upptæk með fyrirhuguðum breytingum á auðlindagjaldi og að útgerðin þoli ekki slíka gjaldtöku. Nú eru það sjálfsögð sjónarmið að gjaldtaka fyrir afnot af takmarkaðri auðlind skuli vera hófleg, eðlileg og taka mið af þeim ávinningi, sem aðgangur að auðlindinni gefur en feli ekki í sér ofsköttun. Það er mjög miður að frumvörp sjávarútvegsráðherra skuli koma inn í þingið án þess að búið sé að reikna út hver áhrif þau munu hafa á þjóðarbúið, ríkið og aðila í sjávarútvegi.

Búa til eignarrétt útgerðar

SJS_141229.jpg

Svona flaustursleg vinnubrögð virðast loða nokkuð við tilraunir þessarar ríkisstjórnar til að koma í gegn breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Skemmst er að minnast frumvarpanna sem Jón Bjarnason forveri Steingríms í embætti lagði fram á síðasta ári. Þau þóttu mjög illa undirbúin og óvönduð smíð. Frumvörp Steingríms virðast runnin úr sömu smiðju.

Raunar er stórfurðulegt að samkvæmt frumvörpunum virðist ríkisstjórnin vilja koma á eignarrétti útgerðarinnar á þjóðarauðlindinni, sem alls ekki er fyrir hendi nú. Í dag er aflaheimildum úthutað til eins árs í senn en fyrirhugaðar breytingar ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir að aflaheimildum verði úthlutað til 20 ára í senn. Eins árs úthlutun er hægt að breyta einu sinni á ári án þess að ríkið baki sér bótaábyrgð en það er ekki hægt að hrófla við 20 ára aflaheimildum nema á 20 ára fresti vegna þess að 20 ára nýtingarréttur felur í sér eign rétthafans.

Aðeins 20 prósent afla fer á markað

Gagnrýni LÍÚ og Landsbankans á frumvörpin er athyglisverð. Flest aðildarfyrirtæki LÍÚ reka bæði útgerð og fiskvinnslu. Megnið af þeim afla sem fyrirtæki LÍÚ koma með að landi fer í beinni sölu til útgerðarvinnslunnar á skiptaverði Verðlagsstofu, sem er 30-40 prósentum lægra en verðið sem fæst á markaði. 80 prósent alls botnfiskafla sem veiddur er á Íslandsmiðum er seldur beinni sölu. Einungis 20 prósent aflans er seldur á markaði.

Hvaða áhrif hefði það á afkomu útgerðarinnar og getu hennar til að greiða fyrir afnot af þjóðarauðlindinni ef hún yrði skylduð til að setja allan fisk á markað og tvöfalt kerfi í verðlagningu á fiski yrði afnumið hér á landi? Myndi það ekki bæta afkomu útgerðarinnar stórkostlega ef hún setti allan fisk á markað?

Skoðum málið. Ekki er fjarri lagi að skiptaverð verðlagsstofu sé 35 prósentum lægra en verð á fiskmörkuðum. Til einföldunar skulum við setja upp eftirfarandi dæmi þar sem gert er ráð fyrir því að verð á fiskmörkuðum sé 100:

Aflaverdmaeti_141229.png

Í þessu litla dæmi sjáum við að afkoma útgerðarinnar, sem selur sinn fisk á markaði, er meira en tvöfalt betri en afkoma þeirrar sem veitir aflanum áfram til eigin vinnslu á skiptaverði Verðlagsstofu. Það er ekki nóg með að framlegð og afkoma útgerðarinnar brenglist mjög þegar skiptaverðið er notað heldur sjáum við glögglega að þessi tvöfalda verðlagning hefur gríðarleg áhrif á aflahlut sjómanna og hafnargjöld, sem renna til sveitarfélaga. Hér er ekki horft á óbeina þætti s.s. tekjuskatt og útsvar sjómanna og skattgreiðslur útgerða.

Frumvörp taka ekki á grundvallaratriðum

Bokari_141229.jpg

Það dylst engum að reiknimeistarar fá út gjörólíkar niðurstöður um getu útgerðarinnar til að greiða auðlindagjöld eftir því hvort stuðst er við afkomu útgerða sem notast við skiptaverð Verðlagsstofu eða hinna sem selja fisk á markaði.

Á þessu er ekki tekið á nokkurn hátt í frumvörpum sjávarútvegsráðherra. Er það ein grundvallarástæða þess að frumvörpin, eins og þau nú liggja frammi, eru gagnslítil. Þau flækja til muna fiskveiðistjórnunarkerfið en taka ekki á grundvallarþáttum við að ákvarða veiðigjald.

Nú er gert ráð fyrir flóknum útreikningum til að reikna út auðlindarentuna ekki síst fyrir þá sök að áfram er gert ráð fyrir tvöfaldri verðlagningu á sjávarafla af Íslandsmiðum. Með því að kveða skýrt á í lögum um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu og að allur afli fari á markað er búið til gegnsætt og einfalt kerfi. Þá þarf ekki flókna útreikninga til að finna auðlindarentuna. Hún kemur þá beint fram í afkomu útgerðarinnar.

Eilífðar þrætuepli?

Það er annað atriði sem næst fram með því að allur fiskur verði settur á markað og skilið verði á milli fjárhags útgerða og útgerðavinnsla. Þá verður samkeppnisstaða útgerðarvinnsla og sjálfstæðra fiskframleiðenda loksins jöfnuð til mikilla hagsbóta fyrir þjóðarbúið – fyrir utan nú að það er vitanlega sanngirnisatriði að útgerðarvinnslur hafi ekki samkeppnisforskot á sjálfstæða framleiðendur. Það er að sjálfsögðu óeðlilegt að fyrirtæki, sem njóta ríkisstuðnings í því formi að hafa aðgang að takmarkaðri auðlind, geti nýtt sér þau forréttindi til að ná forskoti á samkeppnismarkaði. Samkeppniseftirlitið ætti vitanlega að grípa þar í taumana hvað sem líður lagasetningu um fiskveiðistjórnun. Til þess hefur eftirlitið skýrar heimildir sem það hefur áður nýtt sér t.d. á orkumarkaði. Nú verður að teljast ólíklegt að frumvörp sjávarútvegsráðherra nái fram að ganga fyrir þinglok. Til þess eru þau of gölluð og ríkisstjórnin of veik. Það er líka fráleitt að ganga frá lagasetningu um fiskveiðistjórnun og veiðigjöld án þess að taka á ógagnsæi í greininni, tvöfaldri verðlagningu sjávarafla og óásættanlegu samkeppnisforskoti útgerðarvinnslu gagnvart sjálfstæðum framleiðendum. Verði ekki tekið á þeim málum verður grunnur auðlindagjalds að auki endalaust þrætuepli.

http://www.pressan.is/pressupennar/LesaOlafArnarson/afkoman-er-tvofalt-betri


Helstu færslur