top of page

Marx og Lenín í útgerð á Íslandi? - Ólafur Arnarson


OA_portrett.png

Lárus Ásgeirsson, forstjóri Icelandic Group, fjallaði um veiðar og verðmætasköpun í grein sem hann birti í Morgunblaðinu í síðustu viku. Lárus gerir virðiskeðjuna í sjávarútvegi að umfjöllunarefni og kemst að þeirri niðurstöðu að gríðarlega mikilvægt sé að sú keðja slitni ekki heldur sé á sömu hendi allt frá fiskurinn er veiddur þar til hann kemur á disk neytandans.

Þetta sjónarmið er í góðum takti við málflutningi LÍÚ og hræðsluáróðursherferðina sem nú dynur á þjóðinni í gríð og erg. Það eru semsagt engir hæfir til að verka fisk og selja hann erlendis aðrir en útgerðarmenn ef marka má málflutning þeirra og tengdra hagsmunaaðila. Hinn frjálsi markaður mun draga úr afrakstri þjóðarinnar af nýtingu auðlinda sjávar ef ég skil Lárus og útgerðina rétt. Lárus bendir á að verðmæti afla úr sjó á Íslandsmiðum á árinu 2010 hafi verið 117 milljarðar og útflutningsverðmæti sjávarfangs hafi numið 220 milljörðum. Í fyrra voru þessar tölur enn hærri. 80 prósent af íslensku sjávarfangi er selt í beinni sölu á skiptaverði verðlagsstofu til útgerðarvinnslu en aðeins 20 prósent fara á markað. Markaðsverð er allt að 40 prósentum hærra en verðlagsstofuverðið og því er ekki úr vegi að áætla að útgerðarvinnslan fái samkeppnisforskot upp á 30 milljarða á ári vegna tvöfaldrar verðlagningar á sjávarfangi. Þessir 30 milljarðar koma aðallega úr vösum sjómanna og skattgreiðenda.

Ekki veiða fisk á sumrin

Fiskiskip.jpg

Réttlætingin á þessum forréttindum útgerðarinnar, sem raunar stangast á við samkeppnisreglur á Evrópska efnahagssvæðinu, er sú að þarfir fiskneytenda séu mismunandi úti í heimi og enginn geti sinnt þeim þörfum annar en sá sem dregur fiskinn úr sjó. Lárus skrifar að það hafi gerst í fyrra að borist hafi lélegur íslenskur fiskur á markað í Grimsby. Við eftirgrennslan hafi komið í ljós að þessi fiskur hafi verið úr sumar- og haustveiði hér við land. Lárus kennir því um að þarna hafi virðiskeðjan brostið með þessum alvarlegu afleiðingum. Boðskapur Lárusar, ef ég skil hann rétt, er sá að ekki eigi að veiða fisk á sumrin og haustin við Ísland og það sé ekki hægt að tryggja nema að útgerðin haldi á allri virðiskeðjunni. Lárus þakkar útgerðinni og nánu samstarfi hennar við innlenda og erlenda samstarfsaðila það að meðalverð á íslenskum fiski á mörkuðum í Evrópu sé mun hærra en en á fiski frá nágrannalöndum okkar. Útgerðin passi upp á að veiða bara fisk á réttum árstíma og að ferskleiki aflans haldist í gegnum alla virðiskeðjuna. Lárus lætur þess ógetið að það var fyrst og fremst eftir að einokun stóru sölusambanda útgerðarinnar á fiskútflutningi var hrundið sem íslenskum fiski var mörkuð sérstaða á mörkuðum og hann gerður að munaðarvöru. Á meðan útflutningur var á höndum útgerðarinnar einnar var íslenskur fiskur aðallega seldur sem magnvara fyrir stóreldhús í erlendum fangelsum og sjúkrastofnunum og til fremur lágt skrifaðra skyndibitakeðja.

Virðisaukinn ekki útgerðinni að þakka

Fiskvinnsla.jpg

Með tilkomu sjálfstæðra fiskframleiðenda breyttist staða íslensks sjávarfangs á erlendum mörkuðum. Sjálfstæðir framleiðendur bjuggu – og búa – við mun hærra hráefnisverð en útgerðarvinnslurnar og hafa því þurft að fá hærra verð fyrir vöru sína á erlendum mörkuðum. Þess vegna hafa sjálfstæðir framleiðendur verið í forystu fyrir vöruþróun og auknum gæðum á íslenskum fiski sem núorðið er seldur sem munaðarvara í sælkeraverslunum og á betri veitingahúsum beggja vegna Atlantsála. Útgerðarvinnslurnar hafa verið í sporgönguhlutverki þegar kemur að því að hámarka verðmæti útflutnings og stundum meira að segja stundað undirboð og hálfgerða skemmdarverkastarfsemi á mörkuðum sem byggðir hafa verið upp á löngum tíma með blóði, svita og tárum. Sjávarútvegsfrumvörp ríkisstjórnarinnar þrengja að sjálfstæðum framleiðendum og þröngva þeim nánast út af markaði. Verði fiskveiðistjórnunarfrumvarpið að lögum er viðbúið að sjálfstæðum framleiðendum fækki mjög. Útgerðinni verður aftur fært ofurvald yfir öllum fiskútflutningi á Íslandi.

Sovét fyrirmyndin?

LIU banner.jpg

Málflutningurinn um virðiskeðjuna, sem ekki má bresta, hefur heyrst áður og í öðru samhengi. Óslitna virðiskeðjan er miðstýrður áætlunarbúskapur í sinni tærustu mynd. Frjálsum markaði er hafnað og marxískri miðstýringu hampað. Í Sovétríkjunum sálugu var það ríkið sem átti framleiðslutækin og skipulagði virðiskeðjuna alla leiðina á disk neytenda. Vöruskortur og biðraðir voru förunautar hins sovéska kerfis. Nú vill LÍÚ festa í sessi miðstýrðan áætlunarbúskap í íslenskum sjávarútvegi. Hér skulu framleiðslutækin ekki vera í eigu ríkisins heldur útgerðarinnar, sem gerir áætlanir um veiðar, vinnslu og flutning á neytendamarkaði allt byggt á einstakri sérþekkingu útgerðarinnar á árstíðum, veðurfari, óskum og mismunandi matmálstímum erlendra neytenda. Vitanlega getur enginn annar en íslenska útgerðin uppfyllt þarfir erlendra neytenda. Ef farið er að hleypa einhverjum utanaðkomandi – svo sem frjálsum fiskframleiðendum – inn í virðiskeðjuna er öllu stefnt í voða. Sjálfstæðir framleiðendur eru náttúrulega ekki í jafn góðum tengslum við erlenda kaupendur og útgerðin. Sjálfstæðir framleiðendur væru vísir til að reyna að selja fisk á þriðjudögum þegar útgerðarmenn vita að sjálfsögðu að evrópskir neytendur kaupa sinn fisk á föstudögum. Þeim væri trúandi til þess að vilja fá ferskan fisk á sumrin, þegar útgerðarmenn vita að það á ekki einu sinni að veiða fisk.

Lenin.jpg

Það er að sjálfsögðu ekki hægt að treysta markaðinum til að miðla upplýsingum um bæði framboð og eftirspurn. Nei, það sér hver maður að miklu skilvirkara er að útgerðin hafi þetta allt á sinni hendi. Tuttugasta öldin sýndi líka og sannaði yfirburði miðstýringar og áætlunarbúskapar framyfir markaðshagkerfið. Öll þekkjum við söguna um Bandaríkin og Vestur-Evrópu sem markaðshagkerfið hneppti í ánauð fátæktar og vöruskorts á meðan frjáls lýðurinn í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu naut ávaxta miðstýrðs áætlunarbúskapar að hætti þeirra félaga Marx og Leníns – hinna miklu hugsuða, sem höfðu svo mikla innsýn í þarfir neytenda að þeir hefðu líkast til plumað sig vel sem útgerðarmenn á Íslandi. Í öllu falli skildu þeir mikilvægi þess að halda virðiskeðjunni óslitinni á einni hendi.

http://www.pressan.is/pressupennar/LesaOlafArnarson/marx-og-lenin-i-utgerd-a-islandi


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page