Fjölmennur aðalfundur SFÚ
Sveitarfélögin tapa milljarði á ári
Fjölmennur aðalfundur SFÚ var haldinn á Hótel Borg fimmtudaginn, 15. nóvember 2012. Fundinn sátu um 100 manns. Yfirskrift fundarins var:
Verðlags- og samkeppnismál í sjávarútvegi
Aðalræðumaður var Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar hf. Hann greindi frá reynslu sinni og síns fyrirtækis af samkeppnisbrotum stærri samkeppnisaðila á markaði og viðbrögðum samkeppnisyfirvalda. Sem kunnug er leiddu samkeppnisbrot Valitors (áður Visa Ísland) og Borgunar (áður Kreditkort) til stærstu samkeppnissektar Íslandssögunnar – samtals um 730 milljónir króna.
Á fundinum var kynnt ný skýrsla, sem KPMG hefur unnið fyrir SFÚ, um áhrif fiskmarkaða á fiskverð – og þá sérstaklega um áhrif af hærra fiskverði á hafnarsjóði og útsvarstekjur sveitarfélaga. Niðurstöðurnar eru sláandi. Ef horft er aðeins til ársins 2011 urðu sveitarstjórnir af 1 milljarði króna í útsvarstekjur vegna þess að stærstur hluti bolfisksafla er seldur í beinum viðskiptum á skiptaverði Verðlagsstofu en ekki á markaðsverði. Hafnarsjóðir töpuðu næstum 300 milljónum á þessu eina ári. Greinilegt er því að krafan um að allur fiskur fari á markað er ekki aðeins réttlætismál og mikið hagsmunamál fyrir sjálfstæða framleiðendur heldur einnig gríðarlegt hagsmunamál fyrir sveitarfélögin í landinu. Þá eru ónefnd áhrifin á skatttekjur ríkisins, en óhætt er að áætla að þar sé a.m.k. um aðra eins upphæð að tefla.
Þingmennirnir Eygló Harðardóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Magnús Orri Schram og Þór Saari fluttu ávörp og tóku þátt í pallborðsumræðum í lokin. Greinilegt var á máli þeirra að sjónarmið og málstaður SFÚ nýtur aukins og vaxandi skilnings á Alþingi Íslendinga. Hægt er að skoða skýrslu KPMG hérna.

