top of page

SFÚ kærir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins

Fréttatilkynning

20. desember 2012

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) hafa kært ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (SKE) nr. 28/2012 til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krefst þess að nefndin kveði á um fjárhagslegan aðskilnað milli annars vegar útgerðar og hins vegar vinnslu sjávarafla hjá fyrirtækjunum HB Granda hf., Vísis hf. Brims hf. (nú ÚA) og Samherja hf. Kæra SFÚ snýr að 14. gr. samkeppnislaga og túlkun á henni. Greinin hljóðar svo:

Þegar um er að ræða opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar er Samkeppniseftirlitinu heimilt að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað, annars vegar á milli þess hluta rekstrar fyrirtækisins sem nýtur einkaleyfis eða verndar og hins vegar þess hluta rekstrar sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af starfsemi sem nýtur einkaleyfis eða verndar.

Í niðurstöðukafla ákvörðunar SKE nr. 28/2012 segir:

„Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að fyrirliggjandi upplýsingar gefi ekki til kynna að forsendur séu til þess að fallast á kröfur SFÚ um beitingu á 14. gr. samkeppnislaga til þess að kveða á um fjárhagslegan aðskilnað á milli útgerðar og fiskvinnslu fyrirtækja sem stunda bæði veiðar og vinnslu afla (lóðrétt samþætt útgerð). Þá benda gögn og sjónarmið aðila ekki til þess að forsendur séu til þess á beita 10. eða 11. gr. samkeppnislaga í málinu."

SFÚ telur túlkun SKE á 14. gr. ranga og að eftirlitið hafi heimild til að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað milli veiða, sem njóta ríkisverndaðs einkaaðgangs að takmarkaðri auðlind, og vinnslu, sem rekin er á samkeppnismarkaði. SFÚ telur að sú niðurstaða SKE að veiðileyfi á grundvelli laga um stjórn fiskveiða geti ekki talist opinbert einkaleyfi í skilningi 14. gr. samkeppnislaga sé röng. Þá telur SFÚ að sá rökstuðningur sem SKE gefur fyrir niðurstöðu sinni um gildissvið 14. gr. og efnisinntak hennar gefi til kynna að eftirlitið hafi komist að rangri niðurstöðu. Með hliðsjón af markmiði samkeppnislaga, framkvæmd Evrópudómstólsins og túlkunum fræðimanna telur SFÚ að veiðileyfi og aflaheimildir geti talist opinbert einkaleyfi í skilningi 14. gr. samkeppnislaga.

Því krefst SFÚ þess að áfrýjunarnefnd samkeppnismála ógildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, í máli nr. 28/2012. Þá er þess krafist að nefndin kveði á um fjárhagslegan aðskilnað á milli annars vegar útgerðar og hins vegar vinnslu sjávarafla hjá eftirtöldum fyrirtækjum: HB Grandi hf., kt. 541185-0389, Vísir hf., kt. 701181-0779, Brims hf., kt. 410998-2629 (Nú ÚA) og Samherji hf., kt. 610297-3079. Til vara er þess krafist að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins verði ógild á þeim grundvelli að málsmeðferðarreglur hafi verið brotnar við meðferð málsins.

Þrátt fyrir að SKE telji sig ekki hafa forsendur til að fallast á kröfur SFÚ um beitingu á 14. gr. samkeppnislaga og kveða á um fjárhagslegan aðskilnað á milli útgerðar og fiskvinnslu fyrirtækja sem stunda bæði veiðar og vinnslu afla (lóðrétt samþætt útgerð) telur SKE engu að síður að pottur sé brotinn varðandi samkeppnisumhverfi í sjávarútvegi vegna lóðréttrar samþættingar útgerðarvinnsla eins og glögglega kemur fram í lokamálsgrein niðurstöðukafla SKE sem er svohljóðandi:

„Hins vegar hefur Samkeppniseftirlitið, í tengslum við ákvörðun þessa, beint áliti til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra þar sem hvatt er til þess að skoðuð verði tiltekin atriði er snerta lóðrétta samþættingu í sjávarútvegi."

SKE hefur með öðrum orðum farið fram á að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að hann láti endurskoða reglu- og lagaumhverfi á samkeppnismarkaði í sjávarútvegi. Út frá áliti SKE liggur ljóst að hér er ekki síst átt við reglur um tvöfalda verðmyndun á sjávarafla þar sem verðlagsstofa skiptaverðs skekkir mjög samkeppnisstöðu útgerðarvinnslum í hag og útgerðarfyrirtækin sjálf koma að beinu samráði um verðlagningu.

Ráðherra hlýtur að taka þetta álit SKE alvarlega og beita sér tafarlaust fyrir því að ráðist verði í breytingar á lögum og reglugerðum til að tryggja jafnræði milli útgerðarvinnsla og sjálfstæðra framleiðenda á samkeppnismarkaði og koma í veg fyrir að handhafar aflaheimilda geti notfært sér einkaaðgang að takmarkaðri auðlind til að ná samkeppnisforskoti.

F.h. stjórnar SFÚ

Ólafur Arnarson s. 615-4763


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page