top of page

Stjórn SFÚ heimsækir fiskmarkaði

Stjórn SFÚ hefur að undanförnu fundað með forsvarsmönnum stærstu fiskmarkaða landsins. Þriðjudaginn 12. febrúar sl. var fundað með Ragnari H. Kristjánssyni, framkvæmdastjóra Fiskmarkaðar Suðurnesja, í Sandgerði og í morgun, 20. febrúar, var fundað með Páli Ingólfssyni, framkvæmdastjóra Fiskmarkaðar Íslands í Ólafsvík.

SFÚ sendi bréf á stjórnarfund RSF 14. febrúar sem tekið var fyrir á þeim stjórnarfundi. Þar sitja þrír stjórnarmenn frá FMS og tveir frá FMÍ. Í bréfinu var farið yfir þau helstu vandamál sem upp hafa komið í samskiptum milli seljenda og kaupenda, óskað var eftir að stofnuð yrði nefnd sem færi yfir þessi ágreiningsmál og skyldi skila af sér niðurstöðu fyrir 1. Apríl 2013. Bréf mun verða sent öllum fiskmörkuðum landsins næstu daga.

Efni fundanna með fiskmörkuðum var fyrst og fremst gæðamál á fiskmörkuðum, kvartanaferli og úrlausn ágreiningsefna. Félagsmenn í SFÚ hafa rekið sig á að misjafnar reglur um gæði og úrlausn kvartana virðast gilda milli markaða og raunar er enginn formlegur farvegur fyrir ágreiningsefni, sem ekki leysast, annar en að fara fyrir dómstóla.

Á báðum fundum skiptust menn á skoðunum af hreinskilni. Helstu mál sem brenna á félagsmönnum SFÚ snúa að upplýsingamiðlun fiskmarkaða varðandi t.d. innyflaprósentu og sýkingu í fiski og gæðamálum á borð við hitastig afla og meðferð hans bæði um borð í veiðiskipum og eftir að á land er komið. Þá hefur stærðarflokkun verið mjög misjöfn milli markaða og félagsmenn telja markaðina of eftirgefanlega gagnvart útgerðum, sem gefa ítrekað villandi upplýsingar um samsetningu afla og rangar stærðir og eru þetta oft sömu aðilarnir sem komast upp með þetta trekk í trekk. Við núverandi aðstæður virðast markaðirnir ekki geta tekið á slíkum málum svo vel sé. Mikilvægt er að ein regla um flokkun gildi á öllum mörkuðum.

Eitt alvarlegasta vandamálið fyrir kaupendur á fiskmörkuðum er að enginn formlegur farvegur er fyrir úrlausn ágreiningsefna milli kaupenda og seljenda - annar en að fara fyrir dómstóla ef ekki næst samkomulag. SFÚ telur eðlilegt að komið sé á fót formlegum aðila, sem úrskurði um gæði og önnur ágreiningsefni milli seljenda og kaupenda. Þetta verði faglegur aðili á borð við MAST. Eins og fram kom í bréfi SFÚ, sem lagt var fyrir stjórnarfund RSF 14. febrúar síðastliðinn leggja samtökin til að komið verði á fót starfshópi aðila sem geri tillögur um staðla, gæðamál og úrlausn ágreiningsefna og skili tillögum fyrir 1. apríl næstkomandi.

Myndin hér fyrir ofan var tekin í Ólafsvík 20. febrúar 2013. Á henni eru frá vinstri: Gunnar Örlygsson, Páll Ingólfsson hjá Fiskmarkaði Íslands, Steingrímur Leifsson, Þorgrímur Leifsson, Ólafur Arnarson, Albert Svavarsson og Kristján Berg.


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page