Er verið að gefa makrílinn?

Þetta var yfirskrift hádegisverðarfundar, sem Félag viðskipta- og hagfræðinga hélt fimmtudaginn 21. maí. Frummælendur á fundinum voru Þorkell Helgason stærðfræðingur og Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims.
Svo sem yfirskriftin ber með sér fjallaði fundurinn um úthlutun makrílkvóta. Þorkell mælti fyrir því að markaðsleiðir yrðu farnar við úthlutun kvótans og einskorðaði sig ekki við makrílkvóta í þeim efnum. Þorkell er einn aðstandenda undirskriftarátaksins, Þjóðareign (thjodareign.is).
Guðmundur sýndi fram á að staðsetning og tímasetning makrílveiða við Ísland hefur breyst mikið frá því þessi stofn varð fyrst merkjanlegur í miklu magni hér við land. Í upphafi var um ólympískar veiðar að ræða og þá var megnið að makríl veitt nánast um leið og torfurnar komu inn fyrir mörk fiskveiðilögsögunnar, út frá suð-austurlandi. Eftir að kvóta var komið á er fiskurinn veiddur síðar og veiðistaðirnir dreifast mera hringinn í kringum landið. Fiskurinn er feitari og verðmæti aflans mun meira en var í ólympísku veiðunum.
Eftir framsöguerindi voru pallborðsumræður þar sem auk frummælenda tóku þátt Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda og Gunnar Tryggvason raforkuverkfræðingur.
Í máli Gunnars, sem er sérfræðingur í orkugeiranum (en margt er líkt með sjávarútvegi og orkugeiranum, t.d. takmörkuð auðlind), kom fram að í bæði sjávarútvegi og orkugeiranum eru eftirmarkaðir, annars vegar með orku og hins vegar með aflaheimildir og kvóta. Í sjávarútveginum er hins vegar enginn frummarkaður með aflaheimildir þar sem þeim er úthlutað beint til ákveðinna fyrirtækja án þess að leiðir markaðarins séu notaðar. Þessu er öfugt farið með orkugeirann þar sem til staðar er mikilvægur frummarkaður með orku.
Að mati Gunnars vekur þetta ýmsar spurningar sérstaklega þar sem svo margt er líkt með þessum tveimur atvinnugreinum – báðar eru frekar á fjárfestingar, og þá ekki síður orkugeirinn. Almennt er að mati Gunnars hægt að fullyrða að þar sem uppboðsmarkaðir hafa verið teknir upp s.s. í öllum okkar helstu samanburðarlöndum hefur breytingin orðið til batnaðar, gagnsæi í verðmyndun og sátt á mörkuðum. Þessi þróun á eftir að eiga sér stað á raforkumörkuðum á Íslandi í framtíðinni að mati Gunnars og hvatti hann stjórnvöld til að skoða hvort sama gæti átt við um úthlutun á makrílkvótum.
Mynd með innslagi er af Gunnari Tryggvasyni.