SFÚ gagnrýnir framgöngu íslenskra stjórnvalda

Stjórn SFÚ hefur sent frá sér ályktun vegna þeirrar stöðu sem upp er komin vegna viðskiptabanns Rússa gegn Íslandi. Stjórnin átelur utanríkisráðherra og stjórnvöld fyrir framgöngu sína í þessu máli og gagnrýnir að ekkert mat skuli hafa verið lagt á mögulegar afleiðingar þess að Ísland tæki þátt í þvingunaraðgerðum Bandaríkjanna og ESB gegn Rússlandi.
SFÚ vekur athygli á því að um leið og útlit er fyrir að aðgerðir stjórnvalda muni valda stórútgerðinni tjóni rjúka ráðamenn til og boða bætur og styrki til sterkustu fyrirtækja landsins, sem hafa hagnast um stjarnfræðilegar fjárhæðir á undanförnum árum m.a. vegna mjög hagstæðrar gjaldtöku stjórnvalda fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og vegna samkeppnismismununar, sem viðgengst í sjávarútvegi. Sú mismunum er í þágu stórútgerðarinnar á kostnað annarra fyrirtækja í sjávarútvegi og í boði stjórnvalda.
Einnig er bent á að smærri og meðalstór sjálfstæð fyrirtæki í sjávarútvegi vinna mun verðmætari afurðir úr makríl en stórútgerðin sem selur í miklu magni inn á ódýra markaði í Rússlandi og víðar. Verðmætustu afurðirnar eru unnar úr fiski, sem veiddur er af smábátum og gjarnan seldur á fiskmörkuðum.
Þá gagnrýnir SFÚ harðlega að stjórnvöld hafa í þrjú ár ekkert gert með bein timæli frá Samkeppniseftirlitinu um úrbætur á samkeppnisumhverfi í sjávarútvegi heldur staðið vörð um samkeppnismismunun sem kemur í veg fyrir að þjóðin fái hámarksarð af auðlindinni í hafinu.
Ályktunina í heild má lesa hér.