top of page

Panama-virðiskeðjan


Þessi grein birtist í laugardagsblaði Morgunblaðsins, 11. júní.

11. júní 2016 | Aðsent efni | 732 orð | 1 mynd

Panama-virðiskeðjan

Eftir Ólaf Arnarson

Ríkisstjórnarflokkarnir standa dyggan vörð um það sem þeir kalla óslitna virðiskeðju í sjávarútvegi. Slík keðja gengur út á að sami aðili haldi um alla hlekki virðiskeðjunnar allt frá því fiskurinn er óveiddur í sjónum hér við land þar til hann er kominn á matseðilinn hjá dýrindis veitingahúsum eða í kæliborðið í betri fiskverslunum beggja vegna Atlantsála. Þetta er það fyrirkomulag sem stórútgerðin og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi tala fyrir. Þetta er það fyrirkomulag sem bankarnir tala fyrir enda eiga þeir í raun bróðurpartinn af öllum veiðiheimildum við Ísland.

Í óslitinni virðiskeðju felst að markaðslausnum er hafnað. Ekki er einu sinni reynt að nýta markaðinn til að verðleggja aðgang að hinni takmörkuðu, en sameiginlegu, auðlind þjóðarinnar, fiskinum í sjónum við Ísland. Niðurstaðan er sú að handhafar veiðiheimilda fá í raun niðurgreiddan aðgang að dýrmætustu auðlind þjóðarinnar.

Nú skyldi maður ætla að stjórnvöld gættu þess vel að hinn niðurgreiddi aðgangur að auðlindinni væri ekki misnotaður á íslenskum samkeppnismarkaði, t.d. með því að festa í lög reglur sem tryggja að allir sitji við sama borð í íslenskri fiskvinnslu og standi frammi fyrir sambærilegum hráefniskostnaði. Raunin er hins vegar sú að stórútgerðin, sem jafnframt er með fiskvinnslu, hefur leyfi til að verðleggja þann fisk sem hún nýtir sjálf langt undir því markaðsverði, sem sjálfstæðir framleiðendur verða að borga. Þar sem laun sjómanna reiknast út frá aflaverðmæti við skipshlið lækkar þetta einnig launakostnað þeirra útgerðarfyrirtækja, sem eru með lóðrétt samþætta starfsemi veiða og vinnslu.

Haldið í úrelt og skaðlegt kerfi

Stjórnvöld standa hins vegar vörð um þetta mismununarkerfi með þeim rökum að mikil verðmæti liggi í því fyrir þjóðarbúið að virðiskeðjan sé óslitin. Þar sé m.a. um afhendingaröryggi að tefla, þar sem stórar útgerðarvinnslur geri oft og tíðum langtíma afhendingarsamninga sem erfitt sé að standa við fái þær ekki að hafa alla hlekki á sinni hendi, frá veiðum til vinnslu til sölu á erlendan markað.

Þessi röksemdafærsla stenst ekki skoðun því nýsköpun í vinnslu og sölu íslenskra sjávarafurða hófst ekki fyrir alvöru fyrr fiskmarkaðir hér á landi ruddu brautina fyrir sjálfstæða framleiðendur, en fyrir þann tíma var allt sölukerfi sjávarafurða hlekkjað í höft og stór sölusambönd á borð við SÍF, SH og Sambandið skiptu markaðinum á milli sín.

Enn eimir eftir af þessu gamla kerfi því smærri útgerðarfyrirtækjum og sjálfstæðum fiskframleiðendum er gert mjög erfitt fyrir og óslitna virðiskeðjan þjónar fyrst og fremst stærstu útgerðarfyrirtækjunum. Ég hef áður fært rök fyrir því að hin óslitna virðiskeðja er í raun marxísk og áþekk þeirri virðiskeðju, sem tröllreið öllu í gömlu Sovétríkjunum. Sá er munurinn á sovésku virðiskeðjunni og óslitnu virðiskeðjunni í íslenskum sjávarútvegi að ríkið átti alla hlekkina í þeirri sovésku en íslenska ríkið hefur fært einkaaðilum þá íslensku.

Nú höfum við í gegnum Panama-skjölin fengið upplýsingar um að óslitna virðiskeðjan í íslenskum sjávarútvegi endar ekki á sölustöðum íslensks sjávarfangs erlendis eins og við áður töldum. Nei, hún nær alla leið til Panama og eflaust, ef vel er skoðað, enn lengra – til Bresku jómfrúaeyja eða jafnvel Seychelles-eyja. Í Panama-skjölunum eru upplýsingar um að aðstandendur stórra og leiðandi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja eru með reikninga og félög í gegnum hina alræmdu Mossack Fonseca-lögfræðistofu í Panama. Réttnefni hinnar óslitnu virðiskeðju í íslenskum sjávarútvegi gæti því verið Panama-virðiskeðjan. Varla dregur það úr dálæti íslenskra ráðamanna á henni.

Svikin loforð

Fyrir síðustu alþingiskosningar var haldinn opinn fundur um sjávarútvegsmál með fulltrúum stjórnmálaflokkanna á vegum Félags atvinnurekenda. Fulltrúi Framsóknarflokksins þar var Sigurður Ingi Jóhannsson, sem tók við embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að kosningum loknum og er nú orðinn forsætisráðherra. Á fundinum lýsti hann skýrum vilja til að jafna samkeppnisstöðu í íslenskum sjávarútvegi og tryggja aukið hráefnisöryggi sjálfstæðra framleiðenda með því að auka það magn afla, sem selt er í gegnum fiskmarkaði.

Skemmst er frá því að segja að efndir Sigurðar Inga urðu engar. Breytti þar engu þótt fyrir lægju sérstök tilmæli frá Samkeppniseftirlitinu til hans um að grípa til aðgerða til að draga úr samkeppnismismunun í greininni, sem m.a. stafar af hinni tvöföldu verðmyndun sem tryggir útgerðarvinnslum allt að 40 prósentum lægra hráefnisverð en sjálfstæðum framleiðendum.

Það skaut því skökku við á dögunum, þegar Sigurður Ingi lofaði kosningum í haust og fullyrti að hann væri vanur að standa við sín loforð. Sem sjávarútvegsráðherra sveik hann gefin loforð og stóð tryggan vörð um sérréttindi þeirra, sem fá niðurgreiddan aðgang að sameign þjóðarinnar. Kannski vilja menn frekar að arðurinn af auðlindinni endi í Panama en á Patreksfirði.

Höfundur hefur sinnt verkefnum fyrir Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda.


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page