top of page

Tilkynning frá SFÚ vegna ummæla formanns Sjómannasambandsins


Vegna ummæla Valmundar Valmundssonar, formanns Sjómannasambands Íslands, í viðtali við 200 mílur í gær vill SFÚ að eftirfarandi komi fram:

Valmundur vísar til tveggja ára gamallar ályktunar frá SFÚ um að skiptaverð Verðlagsstofu verði látið gilda sem uppgjörsverð fyrir sjómenn, hvort sem um er að ræða bein viðskipti eða viðskipti á markaði, og telur hana ganga gegn málflutningi SFÚ í dag. Hér tekur Valmundur hlutina úr samhengi og snýr út úr. Tillaga SFÚ um að verðlagsstofuverð skyldi gilda um uppgjör við alla sjómenn var einungis hugsuð sem sáttatillaga og ein leið til að jafna þann samkeppnismismun sem ríkir í greininni milli útgerðarvinnsla annars vegar og sjálfstæðra útgerða og framleiðenda hins vegar. Eftir sem áður er megin krafa SFÚ sú að allur fiskur fari á markað, þ.e. að markaðsverð verði notað í öllum viðskiptum. Þetta ætti Valmundi að vera kunnugt um.

Eitthvað virðist málflutningur Valmundar loðinn þar sem hann í einu orðinu segir að nýgerðir kjarasamningar sjómanna taki einungis til slægðs þorsks og einskis annars en strax í næstu setningu talar hann um að verði samningarnir samþykktir muni verða markaðstenging á óslægðum þorski og ýsu.

Ljóst er að í nýgerðum kjarasamningum sjómanna samdi forysta sjómanna um að hluti sjómanna fær greitt 100% skiptaverð út frá verði á fiskmörkuðum og hluti einungis 80% af fiskmarkaðsverði. Einnig er tenging við afurðaverð erlendis þannig að uppgjör við sjómenn hjá útgerðarvinnslufyrirtækjum er nokkuð á reiki og virðist nokkuð í höndum útgerðar við hvað verður miðað hverju sinni. Ákvörðun launa hluta sjómanna er þannig fært að mestu leyti í hendur viðkomandi útgerða.

Þá fullyrðir Valmundur að markaðsverð sé ekki endilega rétt verð og erfitt er að henda reiður á við hvað hann á með því. Á hann máski við að þegar lítið hráefni berst inn á markaði, vegna þess að stórútgerðarfyrirtæki stýra nær engum afla þangað, sé verð á íslenskum fiskmörkuðum of hátt og slitið úr tengslum við afurðaverð á erlendum mörkuðum? Þetta sjónarmið geta SFÚ tekið undir og benda á að það skortástand sem ríkir á íslenskum fiskmörkuðum er á ábyrgð stórútgerða, sem selja lítinn sem engan afla á markaði.

Þá hafna SFÚ því að samtökin séu að reyna að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu sjómanna um nýgerða kjarasamninga með því að varpa fram eðlilegum spurningum um innihald samninganna, sem virðast því miður festa í sessi tvöfalda verðmyndun í íslenskum sjávarútvegi og þannig renna stoðum undir þá markaðsmismunun, sem þegar er milli sjálfstæðra útgerða og framleiðenda annars vegar og stórútgerðarinnar, sem selur til eigin vinnslu, hins vegar.

Óneitanlega vekur það furðu SFÚ að þeir sem fara með kjaramál sjómanna skuli semja við viðsemjendur sína um mismunandi kjör sinna félagsmanna, þannig að hluti sjómanna fær uppgjör miðað við 100% markaðsverð en hluti miðað við 80%. Þá er vandséð að sú fullyrðing Valmundar standist að laun sjómanna miðist við það verð sem fæst fyrir „kvikindin“ sem þeir veiða, þegar það á einungis við um hluta hans umbjóðenda.


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page