top of page

Ísfiskur flytur á Akranes


Albert Svavarsson og VIlhjálmur VIlhjálmsson

Í gær var skrifað undir samninga um kaup Ísfisks á vinnsluhúsnæði HB Granda á Akranesi og flytur Ísfiskur starfsemi sína úr Kópavogi á Akranes um áramótin. Kaupverðið er um 340 milljónir króna.

Í samtali við fréttavef SFÚ sagði Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri Ísfisks, að þó að starfsemi fyrirtækisins hafi í áratugi verið á Kársnesinu í Kópavogi geri skipulag svæðisins til framtíðar ekki ráð fyrir starfsemi af þessu tagi. Áformað sé að auka íbúðarbyggð. Þetta sé ekki að bresta á núna um áramótin en þegar mjög gott tækifæri hafi boðist á Akranesi hafi forsvarsmenn fyrirtækisins ákveðið að grípa það.

Nú starfa um fjörutíu manns hjá Ísfiski í Kópavogi. Ljóst er að þau störf flytjast upp á Skaga. HB Grandi og Ísfiskur hyggjast koma til móts við starfsfólk með því að leitast við að fylla þau störf, sem losna við flutningana, annars vegar HB Granda frá Akranesi til Reykjavíkur og hins vegar Ísfisks frá Kópavogi til Akraness, með því að láta starfsmenn sem missa vinnu vegna flutninganna njóta forgangs við ráðningar. HB Grandi mun leigja hluta húsæðisins á Akranesi af Ísfiski undir frystigeymslur.

Ljóst er að þessi flutningur öflugs fiskvinnslufyrirtækis til Akraness dregur mjög úr neikvæðum áhrifum þess að HB Grandi ákvað að flytja alla landvinnslu sína til Reykjavíkur. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fyrirtæki úr röðum SFÚ stíga inn og bjarga störfum þegar stærri fyrirtæki ákveða að hætta starfsemi í sveitarfélögum á landsbyggðinni. Sýnir þetta vel mikilvægi þess að samkeppnisumhverfi í íslenskum sjávarútvegi ýti undir fjölbreytni fyrirtækja, bæði hvað varðar stærð og einnig hvað varðar öflun hráefnis, en Ísfiskur, líkt og flest aðildarfyrirtæki SFÚ, aflar næstum alls síns hráefnis á fiskmörkuðum, sem um þessar mundir eiga mjög undir högg að sækja.

Á meðfylgjandi mynd má sjá þá Albert Svavarsson, framkvæmdastjóra Ísfisks, og VIlhjálm Vilhjálmsson, forstjóra HB Granda skrifa undir kaupsamninginn í gær.


Helstu færslur
Nýlegar færslur
Eldri færslur
Leit eftir leitarorðum
No tags yet.
Fylgstu með okkur
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page