Verndaðir vinnustaðir

Endurtekið efni
Sú grein sem hér birtist var skrifuð sem skoðun í Fiskifréttir árið 2003. Á þessum áratug sem liðinn er höfum við upplifað meiri sviptingar en dæmi eru um í sögunni. Allt frá útrásar-flippinu niður í hrun og í framhaldinu sú glíma sem nú stendur yfir við að ná vopnum okkar á ný. Þótt fjölmargt hafi breyst í þjóðfélaginu þennan áratug, þá hefur verðmyndun á sjávarfangi haldist í sömu hjólförum allan þennan tíma. Þar af leiðandi finnst undirrituðum þessi gamli pistill eiga síst minna erindi til lesenda nú, heldur en fyrir áratug, en hann birtist hér fyrir neðan óbreyttur.
Verndaðir vinnustaðir.
Vafalaust er það vel ljóst í hugum fólks hvað felst í því sem í daglegu tali er nefnt verndaður vinnustaður. Það sem um er að ræða er að flestra mati vinnustaður sem settur hefur verið á laggirnar til handa fólki sem á við einhverskonar fötlun eða veikindi að stríða og getur því ekki sótt sitt lifibrauð á hinn almenna vinnumarkað í samkeppi við þá sem svo lánsamir eru að ganga heilir til skógar.
Ekki þarf ýkja mikið hugmyndaflug til að færa rök fyrir því að ákveðnar atvinnugreinar þar á meðal sú sem oft er kölluð undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar búi nú á tímum við starfsumhverfi sem fellur vel að skilgreiningunni um verndaðan vinnustað. Til staðfestingar þessarar skilgreiningar þarf ekki annað en að líta til þess að stærstu útgerðaraðilar landsins hafa um langa hríð haldið þeirri kenningu á lofti að til þess að forða afkomubresti í greininni verði þeir að njóta sérstakrar aðhlynningar hins opinbera. Í öllu falli er ekki annað að sjá og heyra á forsvarsmönnum stærstu útgerðanna en að það sé talin grunnforsenda fyrir rekstrinum að þeir njóti lögverndaðrar heimildar til þess að kaupa fisk á niðursettu verði af sjálfum sér á meðan þessir venjulegu Jónar sem ekki rúmast innan þessa verndaða umhverfis þurfa að sætta sig við þetta alræmda markaðsverð sem að því er virðist er algjör hryllingur í augum þeirra sem kalla má ráðandi öfl í þjóðfélaginu og kenna sig á hátíðis og tilildögum við frjálsa samkeppni. Eins og margsinnis hefur verið bent á blasir sú dapurlega staðreynd við að þegar um er að ræða undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, þá gilda frjálsræðis slagorðin ekki lengur. Það er nú og verður alla tíð óásættanlegt í lýðræðisríki sem ekki er stærra og fjölmennara en raun ber vitni, að okkar þjóðfélagsþegnunum sé mismunað með að þeim hætti sem hér um ræðir. Þeir sem ekki treysta sér í heilbrigðri samkeppni til að gera þau verðmæti úr sjávarfangi sem til þarf svo um arðsama starfsemi sé að ræða, ættu einfaldlega að snúa sér að öðru. Ég er svo sannarlega hlynntur vernduðum vinnustöðum þar sem þeirra er þörf en í þessu tilviki er um algeran óþarfa að ræða.
Árni Bjarnason
FFSÍ